Öfugt við undanfarin ár hefur lítið sem ekkert snjóað á landinu það sem af er vetri. Elvar Kristinn Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri Þotunnar í Bolungarvík, segir gott að geta unnið í sínum venjulegu verkefnum.

„Veturinn hefur verið æðislegur. Þú færð ekkert væl úr mér. Það er svo mikið að gera í jarðvinnu að við viljum ekki sjá snjó. Það er bara svoleiðis,“ segir Elvar, sem hefur sinnt vetrarþjónustu fyrir Vegagerðina á Flateyrarvegi fyrir vestan.

Undanfarin ár hefur Elvar þurft að takast á við mikinn snjó og hafa þrjár snjóblástursvélar sem hann á verið á fullu við að ryðja vegi, sem hafa orðið ófærir sökum snjós.

Elvar segist ekki verða fyrir tekjutapi þrátt fyrir að lítið sem ekkert sé að gera í snjómokstri.

„Málið er það að hérna fyrir vestan er mikil uppbygging og það eru allir á fullu. Sú vinna sem við stundum daglega, hún leggst af þegar við förum í snjómokstur. Þannig að þetta jafnast út,“ segir Elvar og bætir við að hann sé samt sem áður alltaf klár þegar kallið kemur.

„Ég er með þrjár vélar sem standa bara á keðjum núna og eru að bíða eftir snjó. En mér er alveg sama, af því að það er svo mikið að gera,“ segir Elvar.

Rut Jónsdóttir, forstöðumaður umhverfis- og sorpmála á Akureyri, segir að aðeins hafi verið kallaðir út verktakar til að moka snjó einu sinni í nóvember.

Elvar Kristinn Sigurgeirsson og Rut Jónsdóttir.
Samsett mynd

„Við höfum lítillega þurft að hálkuverja götur og gangstéttir, þannig að kostnaðurinn við snjómokstur þetta haustið er nánast enginn,“ segir Rut og bætir við að hreinsun gatna hafi fengið meiri athygli þetta árið en venjulega.

„Í staðinn höfum við náð að halda götunum hreinum. Það er aukinn kostnaður þar, en ekkert samanborið við að vera með tuttugu snjóruðningstæki úti,“ segir Rut.

Rut telur að verktakarnir sem eru kallaðir út til að moka snjóinn fagni því að sinna venjulegum verkefnum.

Sömuleiðis segir Rut að Akureyrarbær nái að sinna þeim verkefnum sem hefðu venjulega farið á hilluna út af snjó. „Við náum að vinna í þeim áfram vegna góðra veðurskilyrða.“

Akureyringar eru þekktir fyrir heit sumur og snjómikla vetur. Rut segir samt sem áður að ekki sé hægt að spá hvort jólin verði rauð eða hvít fyrir norðan. „Viljum við ekki hvít jól og fá snjóinn?“ spyr Rut.