Veturinn sem er að kveðja á miðnætti er sá mildasti í Reykjavík frá 1976, eða í nálega hálfa öld, alltént hvað snjóalög varðar, en aðeins níu alhvítir dagar voru suðvestanlands á þessum brátt liðna vetri, fjórum fleiri en 1976. Á Akureyri voru alhvítir dagar aftur á móti 59 á þessum tíma, fjórtán færri en á meðalvetri. Þetta kemur fram í helgarveðri Sigurðar Þ. Ragnarssonar, jarð- og veðurfræðings á Fréttavaktinni í kvöld, en þar er horft um öxl hvað veðrið varðar – og fram á við, en tíðarfarsspár fyrir komandi mánuði gera almennt ráð fyrir góðu sumri, að sögn Sigurðar.

Sigurður Þ. Ragnarsson jarð- og veðurfræðingur
Mynd/Hringbraut

Sigurður, eða Siggi Stormur, spáir hins vegar vætutíð um allt vestanvert landið á morgun, Sumardaginn fyrsta, en mildu veðri og tveggja stafa hitatölum á föstudag og laugardag þar til norðanþræsingur lætur aftur á sér kræla á sunnudag, með um þriggja stiga hita fyrir norðan og snjókomu á heiðum.

Veðurkort Sigga Storms fyrir sumardaginn fyrsta á morgun.
Mynd/Hringbraut