„Það snjóar ansi snemma í sumar,“ segir Michael Jón Clarke, tónlistarmaður og íbúi á Akureyri.

Þegar íbúar bæjarins vöknuðu í gærmorgun hafði óboðinn gestur, snjór í fjöllum, hreiðrað um sig í fjöllum í kringum bæinn. Það sætir nokkrum tíðindum þar sem Jónsmessa er í dag.

Michael Jón, sem er fæddur og uppalinn í Bretlandi, segist hafa vanist íslensku veðurfari eftir áratuga búsetu á Akureyri. Hann kippi sér því ekki mikið, fremur en aðrir norðanmenn, upp við kuldann. Nokkur dæmi séu um alhvíta jörð og jafnvel veðurteppingar á þessum árstíma á Norðurlandi.

„Það eru til allskonar hryllingssögur,“ segir Michael og hlær. „Maður getur átt von á öllu hér en mér finnst þetta frekar dapurt,“ bætir hann við.

Michael á gróðurhús og gantast með að kannski taki hann þá hugmynd lengra.

„Ætti maður kannski bara að byggja yfir allan garðinn?“

Arnar Þór Björnsson, tjaldvörður á tjaldstæðinu á Hömrum, norðan Akureyrar, segir að rúmlega 200 manns hafi verið á tjaldstæðinu í gær.

„Já, það er búið að vera ansi napurt en ég held að margir séu með litla hitara með sér sem koma í veg fyrir að fólki verði kalt,“ segir hann.

Arnar hefur starfað um árabil á tjaldstæðinu og segist hafa upplifað allar gerðir af veðri á þessum árstíma, allt frá miklum hita niður í frostmark.

„Það er eins gott að vera viðbúinn öllu,“ segir Arnar.

Sigurður Erlingsson er landvörður í Vatnajökulsþjóðgarði en þar frysti í fyrrinótt. Hann tók mynd af frosnu vatni í krana sem segir meira en mörg orð.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir kuldann norðan heiða óvenjulegan á þessum árstíma en ekki einstæðan. Varað hefur verið við hálku á sumum fjallvegum, svo sem Öxnadalsheiðinni.

Akureyri skartaði ekki sínu fegursta í gær.
fréttablaðið/Auðunn
Þrátt fyrir kuldann skemmtu gestir Akureyrar sér vel.
fréttablaðið/Auðunn