Snjó­koma verður all­víða inn til landsins í dag. Búist er við rigningu eða snjó­komu á Suður- og Suð­austur­landi fyrir há­degi en síð­degis um landið norðan­vert. Hiti á landinu verður um og yfir frost­marki.

Nokkuð kröpp lægð gengur svo austur yfir landið í dag með „til­heyrandi snúningum í veðri“ að því er fram kemur í hug­leiðingum veður­fræðings Veður­stofu Ís­lands. Um og eftir há­degi hvessir við suður­ströndina og má búast við skamm­vinnu hvass­viðri eða stormi undir Eyja­fjöllum og í Ör­æfum. Engar veður­við­varanir hafa þó verið gefnar út í dag en varað er við versnandi aksturs­skil­yrðum á landinu vegna snjó­komu.

Suð­lægt átt er nú snemma morguns og vindur um 5 til 10 metrar á sekúndu. Þá gengur í norð­austan og norðan 8 til 15 metra á sekúndu fyrir há­degi og hvessir með deginum. Í kvöld og nótt gengur svo í norð­vestan 15 til 23 metra á sekúndu austan til á landinu en þá dregur úr úr­komu sunnan­lands.

Minnkandi norð­læg átt verður á­fram um landið norðan­vert á morgun með rigningu eða snjó­komu en þurrt að kalla sunnan heiða. Norðangola eða kaldi og úr­komu­minna síð­degis.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag:
Norðan og norðvestan 13-20 m/s og snjókoma eða rigning um landið N- og A-vert, annars hægari og úrkomulítið. Dregur smám saman úr vindi og úrkomu með deginum. Hiti um og yfir frostmarki.

Á sunnudag:
Hæg breytileg átt og bjart með köflum, en stöku él um landið S-vert. Frost 0 til 6 stig.

Á mánudag:
Gengur í norðaustan 8-15 með dálítilli snjókomu eða slyddu á N- og A-landi, en þurru veðri SV- og V-lands. Hiti um og undir frostmarki, en 1 til 6 stig við S-ströndina.

Á þriðjudag:
Minnkandi norðaustlæg átt og dálítil él um landið N- og A-vert, annars úrkomulítið. Heldur kólnandi.

Á miðvikudag:
Vestlæg eða breytileg átt og víða bjart veður. Frost 2 til 10 stig.

Á fimmtudag:
Útlit fyrir ákveðna sunnanátt með rigningu eða slyddu um landið S- og V-vert. Hlýnar talsvert.