Í dag er spáð snjókomu, fyrst vestan til á landinu. Á Suðvesturlandi hlýnar um tíma og þar verður úrkoman nær slyddu og rigningu. Vindátt verður breytileg, 3 til 8 metrar á sekúndu og frost víða 0 til 8 stig. Fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings að í dag verði úrkomumeira en í gær auk þess sem vindurinn verður aðeins meiri, en annars verður veðrið svipað og í gær.

Á morgun verður úrkomulítið fyrripartinn, en síðdegis bætir í ofankomu og lítur út fyrir að úrkomumynstrið verði á svipuðum nótum áfram, þýtt suðvestantil og rigning eða slydda en víða snjókoma í öðrum landshlutum. Hiti breytist lítið.

Fram kemur á vef Vegagerðarinnar að vetrarfærð er í öllum landshlutum. Hér að neðan má sjá færðarkort.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag:

Norðaustan 3-10 m/s og víða dálítil snjókoma eða slydda. Norðan 5-13 og él síðdegis, en úrkomulítið SV- og V-lands. Hiti um eða undir frostmarki, en kólnar seinnipartinn.

Á miðvikudag (fullveldisdagurinn):

Minnkandi norðanátt og bjart með köflum, en dálítil él á NA- og A-landi. Frost víða 5 til 15 stig, kaldast í innsveitum. Vaxandi suðaustanátt vestast um kvöldið.

Á fimmtudag:

Suðaustan 10-18 með snjókomu og síðar slyddu eða rigningu, einkum S- og V-lands. Hægari suðvestanátt og dregur úr vætu síðdegis. Hlýnandi veður.

Á föstudag:

Vestlæg átt og dálítil él, en þurrt A-til. Hiti um eða undir frostmarki.

Á laugardag:

Útlit fyrir norðvestanátt með éljum á N-verðu landinu.