Viðbúnaðarstig vegna snjóflóðahættu á Norðurlandi hefur verið hækkað og reitur syðst á Siglufirði rýmdur.

„Með nýrri rýmingaráætlun frá því í haust er gert ráð fyrir að það verði rýmt oftar í suðurhluta Siglufjarðar. Unnið er að nýju hættumati fyrir byggðina á Siglufirði eftir snjóflóðin á Flateyri fyrir ári síðan. Annað form er á hættumati fyrir skíðasvæði,“ segir Tómas Jóhannesson, sérfræðingur í ofanflóðamálum hjá Veðurstofu Íslands.

Snjóflóð féll á skíðasvæðið í Skarðsdal á Siglufirði í gærmorgun en svæðið var mannlaust er flóðið féll.

„Þetta flóð sýnir okkur hversu mikilvægt er að bæta öryggi á svæðinu,“ segir Tómas.

„Snjóflóðið var ekki óvænt. Skíðasvæðið á Siglufirði er óheppilega staðsett. Þar hafa áður fallið snjóflóð og valdið tjóni. Undirbúningur er hafinn að því að flytja skíðasvæðið þar sem hættan er yfir mörkum.“