Í kjölfar hamfaranna á Súðavík og Flateyri árið 1995 var þjóðfélagið í losti. Ákveðið var að ráðast þegar í stað í umfangsmiklar framkvæmdir við snjóflóðavarnir. Lagt var mat á hættu um land allt og reynt að forgangsraða verkefnum.

Alls er hættumat í gildi á 23 þéttbýlisstöðum víðsvegar um landið. Flestir þeirra eru á Vestfjörðum. Staðirnir eru skilgreindir sem A-, B-, og C-hættusvæði og eru síðastnefndu svæðin þau hættulegustu. Þar sem byggð fellur innan C-hættusvæða er nauðsynlegt að byggja upp varnir en öryggi fólks á öðrum svæðum er tryggt með vöktun og rýmingum.

Á fimmtán stöðum um land allt hefur verið komið fyrir vörnum eða þá að keyptar hafa verið upp fasteignir á hættulegum stöðum. Alls hefur 21 milljarði króna verið varið í verkefnið. En betur má ef duga skal því enn á eftir að ljúka framkvæmdum á átta stöðum sem skilgreindir eru á hættusvæði C, Patreksfirði, Tálknafirði, Bíldudal, Hnífsdal, Siglufirði, Seyðisfirði, Neskaupstað og Eskifirði. Verðmiðinn á þessum verkefnum er annar 21 milljarður króna.

Sums staðar eru verkefnin farin af stað. Í fyrra hófst vinna við varnir undir Urðarbotni í Neskaupstað og er áætlað að gerð þeirra ljúki á næsta ári. Þá hefst vinna við varnargarða við Urðir, Hóla og Mýrar á Patreksfirði nú í vor og er áætlað að þeirri vinnu ljúki árið 2023. Undirbúningur annarra verkefna er mislangt á veg kominn.

Upphaflega var gert ráð fyrir að framkvæmdum við þéttbýlisstaði sem skilgreindir voru á efsta hættustigi, flokki C, yrði lokið árið 2010 og því hefur mikil töf orðið á framkvæmdum.

Ofanflóðasjóður var stofnaður 1997 til að mæta uppbyggingunni á vörnunum. Sjóðurinn er í vörslu umhverfisráðuneytisins en tekjur hans byggjast á því að árlegt gjald er lagt á allar brunatryggðar húseignir sem nemur 0,3 prósentum af vátryggingaverðmæti. Lauslega áætlað eru rúmlega 20 milljarðar í sjóðnum sem ætti að duga til að klára verkefnin. Það er á ábyrgð fjárlaganefndar að skammta peninga í uppbygginguna ár hvert.

Halldór Halldórsson, sem á sæti í ofanflóðanefnd, er ómyrkur í máli um ástandið. „Þessi uppbygging gengur alltof hægt því Alþingi dregur lappirnar. Ég hef verið í sambandi við þingmenn vegna málsins en það virðist hafa lítil áhrif.

Það virðist aldrei vera heppilegur tími til þess að ljúka þessum verkefnum. Fyrst var bent á efnahagshrunið og núna þarf að halda að sér höndum vegna þenslu í hagkerfinu,“ segir Halldór.

Hann hefur vakið athygli á vandamálinu í nokkur ár en hefur ekki orðið var við áhuga stjórnmálamanna. Meðal annars hefur hann gagnrýnt það að aðeins um þriðjungur fjármuna sem renna í ofanflóðasjóð ár hvert, eins og lög gera ráð fyrir, er notaður í uppbyggingu varna.

„Við hlaupum upp til handa og fóta þegar hamfarirnar skella á en fyrirbyggjandi aðgerðir ganga hægt. Það blasir við að snjóflóðavarnir skiptu sköpum í þessum hamförum í fyrrinótt. Við sem þjóð munum aldrei fyrirgefa okkur það ef líf tapast vegna hamfara á skilgreindum hættusvæðum,“ segir Halldór.