Mörg snjó­flóð féllu á Trölla­skaga seint í gær og í nótt. Enn er talin tölu­verð hætta á að snjó­flóð geti fallið í dag og á morgun, þó ekki í byggð.

Á vef Veður­stofunnar segir að svo­kölluð fleka­flóð hafi fallið í ná­grenni Ólafs­fjarðar og ofan Ólafs­fjarðar­vegar í gær. Flóðin náðu mest stærð 3 en í skýringum Veður­stofunnar segir að snjó­flóð af slíkri stærð geti grafið og eyði­lagt fólks­bíl, vöru­bíl, skemmt hús eða eyði­lagt minni byggingar. Massi snjó­flóðs af þessari stærð er þúsund tonn.

Göngufólk varað við

Tals­vert hefur bætt á snjó í kringum Ólafs­fjörð en hann kom með fremur hlýrri norð­austan­átt í gær þegar rigndi á lág­lendi. Mörg flóð féllu í fjall­lendi í gær og getur snjór á svæðinu enn verið ó­stöðugur. Hann gæti því sett fleka af stað og valdið fleiri snjó­flóðum.

Á vef Veður­stofunnar segir að spá um snjó­flóða­hættu sé gerð fyrir stór land­svæði og þurfi ekki að vera lýsandi fyrir snjó­flóða­hættu í byggð. Hún sé einkum gerð með ferða­fólk í fjall­lendi í huga.

Ekki er gert ráð fyrir að náttúru­leg snjó­flóð falli á svæðinu í dag eða á morgun heldur er hætta á að þau falli af manna­völdum. Það væri því skyn­sam­legt fyrir göngu­fólk að fara ekki til fjalla á utan­verðum Trölla­skaga í dag eða á morgun.