Tals­vert hefur bætt í snjó á norður­hluta landsins síðustu daga, mest á Trölla­skaga og í Eyja­firði, en ríkjandi norð­lægar áttir hafa gert það að verkum að vind­flekar hafa myndast í suð­lægum hvilftum og kleifum.

Ó­liver Hilmars­son, sér­fræðingur á sviði snjó­flóða á Veður­stofu Ís­lands, metur það svo að mesta snjó­flóða­hættan um þessar mundir sé við innan­verðan Eyja­fjörð þar sem ofan­koman hefur verið mest á síðustu dögum, en fönninni hefur kyngt þar niður allt frá byrjun vikunnar.

Ó­liver Hilmars­son sér­fræðingur á sviði snjó­flóða hjá Veður­stofu Ís­lands.
Mynd/Aðsend

Það fannst yfir­borðs­hrím í Hlíðar­fjalli um miðja vikuna og þar eru snjóa­lög veik.

„Það fannst yfir­borðs­hrím í Hlíðar­fjalli um miðja vikuna og þar eru snjóa­lög veik,“ út­skýrir Ó­liver og bætir því við að jafnan skapist hætta á snjó­flóðum þegar hlaði niður ný­s­nævi yfir gamalt harð­fenni. „Snjór er ó­stöðugur á svæðinu og lík­legt er að snjó­flóð falli,“ en hættan sé minni yst á Trölla­skaga þar sem fannir þyki vind­barðari og hlaði niður ný­s­nævi þar sem hrímið er fyrir.

„Við höfum líka á­hyggjur af Aust­fjörðum,“ segir Ó­liver enn fremur „en þar er hætta á ofan­flóðum inn til fjalla og undir bröttum hlíðum og þess vegna höfum við aukið vöktun á þeim slóðum næstu daga, enda verður skaf­renningurinn þar mestur á Ný­árs­dag.“

Veður­spáin fyrir fyrstu daga nýs árs er heldur ó­fýsi­leg, en gert er ráð fyrir illsku­veðri víða um land á Ný­árs­dag, norðan­stormi og snjó­komu eða skaf­renningi á austan­verðu landinu með éljum vestan Trölla­skaga, en lítilli úr­komu um mest allt landið. Frost­laust verður syðst á landinu en gaddurinn allt að sex stigum um landið megin­vert. Á sunnu­dag, annan dag nýs árs, er svo búist við að vindinn taki að lægja í norðan­kalda á snjó­komu norðan heiða, en bjart­viðri syðra og fremur köldu lofti.

Ó­liver segir á­ríðandi að allt úti­vistar­fólk taki spána al­var­lega, einkum fyrir Ný­árs­dag, en sam­kvæmt nýjustu spám er al­versta veðrið aðal­lega bundið við þann dag.

Ætla má að Vest­firðingar geti haldið frið­sam­leg ára­mót, þótt allur sé varinn góður á vetrar­dögum á Ís­landi, enda sé snjó­flóða­hætta metin þar nokkur á næstu dögum.

Tölu­vert af snjó­flóðum féll á norðan­verðum Vest­fjörðum í hríðar­veðri í septem­ber í ár, þau stærstu í ná­grenni Flat­eyrar og í Súða­víkur­hlíð, en einnig féllu minni flóð í Önundar­firði, Skutuls­firði og Bolungar­vík. Engin þeirra flóða ógnuðu byggð, ó­líkt því sem gerðist í árs­byrjun 2020 þegar snjó­flóð hentist úr Skolla­hvilft og yfir varnar­garðana ofan Flat­eyrar.

Tölu­vert af snjó­flóðum féll á norðan­verðum Vest­fjörðum í hríðar­veðri í septem­ber.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson