Hitakerfi sem var sett undir sex flugvélastæði á Keflavíkurflugvelli árið 1986 var tekið úr notkun um tveimur áratugum síðar.

Eins og komið hefur fram í Fréttablaðinu skoðar verkfræðideild Keflavíkurflugvallar nú möguleika á að koma aftur upp hituðum stæðum á vellinum. Mikill vandi getur skapast í hálku, líkt og gerðist síðast nú í janúar, og það átt þátt í að ekki er unnt að koma farþegum frá borði eftir lendingu.

„Hitakerfið sem var sett undir stæði númer 1 til 6 árið 1986 og var aflagt á árunum 2005 til 2008 virkaði þokkalega en hafði þó marga ókosti,“ segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia.

„Kostnaður við að reka kerfið var mikill og á mörkum þess sem var brætt og ekki brætt myndaðist oft 10 til 15 sentimetra hæðarmunur sem olli miklum vandræðum,“ útskýrir Guðjón.

Að sögn Guðjóns eru þau stæði sem hafa síðan verið byggð á vellinum á undanförnum árum fjær flugstöðinni. Því hafi ekki verið eins ákjósanlegt að hafa snjóbræðslu í þeim.

„Í dag erum við að meta kosti, galla og kostnað við uppsetningu og rekstur á snjóbræðslu en með nýrri tækni og betri búnaði eru eldri vandamál mögulega úr sögunni. Ef valið yrði að setja snjóbræðslu undir ný stæði við flugstöðina yrðu fjögur ný slík stæði tekin í notkun árið 2024,“ segir Guðjón.

Guðjón Helgason upplýsingafulltrúi ISAVIA.
Mynd/OZZO Photography

Fyrrnefndu stæðin sex munu fara undir nýbyggingar samkvæmt framkvæmdaáætlum. „Í uppbyggingunni er gert ráð fyrir nýrri byggingu sem tengir saman norður- og suðurbyggingar flugstöðvarinnar með nýjum verslunum, veitingasvæðum, biðsvæðum og landamærum. Hönnun á þeirri byggingu, sem fer yfir stæði 1 til 6, er nú í gangi og ráðgert að hún verði byggð á árunum 2025 til 2030,“ segir Guðjón.

Aðspurður hvort snjóbræðslukerfi hefði breytt einhverju í tilviki þotu sem rakst í landgang á flugstöðinni við fyrrnefndar aðstæður í janúar segir Guðjón erfitt að meta það. „Miðað við fyrri ágalla á kerfinu hefði það mögulega geta valdið meira tjóni. Tilvikið sem um ræðir er í skoðun.“