Halldóra Jónsdóttir og Lára Björgvinsdóttir yfirlæknar geðþjónustu Landspítalans lýsa yfir vonbrigðum að ekki hafi verið gert ráð fyrir nýbyggingum, legudeildum eða dag- og göngudeildum fyrir skjólstæðinga með geðrænan vanda í nýrri heilbrigðisstefnu til 30 ára.

Geðþjónusta Landspítala hefur haft húsnæði á fimm mismunandi stöðum í Reykjavík síðustu ár og eru byggingarnar allar eldri en 40 ára, úr sér gengnar og sumar einfaldlega ónýtar.

Kleppspítali varð 100 ára árið 2007.
Fréttablaðið/Vilhelm Gunnarsson
Um byggingu Kleppsspítala árið 1907.
Timarit.is/Lögrétta 09.01.1907

Halldóra og Lára benda á í grein sinni í Fréttablaðinu í dag að á þessum 40 árum hefur þekking okkar á mikilvægi umhverfis í meðferð einstaklinga sem glíma við geðraskanir fleygt mikið fram. Meiri kröfur eru gerðar til húsnæðis sjúkrahúsa í dag.

„Húsakosturinn eins og hann leggur sig hefur ekki fengið viðeigandi viðhald í gegnum tíðina og því fylgir ýmiss konar vandi, til dæmis snjóar inn á sjúklinga og starfsfólk í vetrarveðrum og mygla hefur greinst í sumum húsanna, nokkuð sem seint telst heilsubætandi. Þjónusta við sjúklinga hefur liðið fyrir þetta ástand,“ segir í greininni.

  • 1200 einstaklingar leggjast inn á geðdeildir Landspítalans á ári hverju.
  • Flestir þurfa að deila herbergi með ókunnugu fólki.
  • 4-6 manns deila sturtu og salerni.
  • 1 sjúklingaherbergi er með sér baðherbergi á geðdeildarhúsinu við Hringbraut.
  • 1 deild í húsinu þar sem allir inniliggjandi fá einbýli en 2 deila salerni og sturtu.

Sjúklingar beittir þvingunum

Umboðsmaður Alþingis gaf út skýrslu í fyrra eftir heimsókn á þrjár lokaðar geðdeildir Landspítalans sem staðfesti að mann­rétt­inda­brot séu fram­in á hverj­um degi á ein­stak­ling­um með geðræn­an vanda.

Ljóst er að fullnægjandi lagaheimildir eru ekki til staðar í íslenskri löggjöf til að taka ákvarðanir gagnvart frelsissviptum einstaklingum á geðheilbrigðisstofnunum. Landspítalanum var gert að taka skipulag sitt til skoðunar. Skýrsluna í heild má lesa hér.

Halldóra og Lára segja pyndingarnefnd hafa bent réttilega á að mannréttindi séu brotin á geðdeildum á Íslandi.

„Hefur geðdeildin fengið ákúrur vegna þess frá pyntinganefnd Evrópuráðsins, sem telur þetta réttilega brot á mannréttindum. Við fullyrðum bæði út frá reynslu og rannsóknum að þrengri geðdeildir þar sem ekki er beint aðgengi að garði/útisvæði auka líkur á spennu, óróleika og of beldisatvikum og um leið því að sjúklingar séu í kjölfarið beittir þvingunum.“