Rannsóknarsetur Háskóla Íslands í fötlunarfræðum ætlar ekki að eiga samskipti við velferðarnefnd á meðan Anna Kolbrún Árnadóttir á sæti í nefndinni. Þetta kemur fram í bréfi sem starsfsfólk nefndarinnar sendi forseta Alþingis í gær. Kjarninn greinir frá þessu í dag.

Fólkið sem skrifar undir bréfið eru Rannveig Traustadóttir, prófessor og forstöðumaður Rannsóknarsetursins, Hanna Björg Sigurjónsdóttir prófessor, James G. Rise lektor, Snæfríður Þóra Egilsson prófessor og Stefán C. Hardonk lektor. Afrit af bréfinu var sent á alla fulltrúa í velferðarnefnd.

Kjarninn segir að í bréfinu komi fram að það hafi verið áfall og þungbært að verða vitni að niðurlægjandi og fordómafullum ummælum um fatlað fólk sem viðhöfð voru í máli sex þingmanna á Klaustri á dögunum. Einkum hafi verið rætt um fatlaðar konur sem fræðimennirnir virði mikils og hafi átt gott samstarf við í baráttu fyrir mannréttindum og mannvirðingu fatlaðs fólks.

Þá segir að djúpstæðir fordómar, mannfyrirlitnig, hroki og vanvirðing hafi birst í garð fatlaðs fólks og annarra jaðarsettra hópa í samtalinu. Það geri það að vekrum að hópurinn muni ekki taka þátt í samstarfi við velferðarnefnd á meðan Anna Kolbrún Árnadóttir, ein sexmenninganna, á þar sæti.

Í upptökunum af Klaustri heyrðist Anna Kolbrún, þingmaður Miðflokksins, ítrekað uppnefna Freyju Haraldsdóttur sem Freyju Eyju. Þá gerði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson grín að því að tveir sessunautar hans við borðið hefðu sérstakan áhuga á Freyju, ásamt þingkonu Samfylkingarinnar.