Konur á Bret­landi eru „hræddar“ við að fara á skemmti­staði eftir fjölda til­fella þar sem konur eru sprautaðar með nauðgunar­lyfjum. Stúdentar víða um land skipu­leggja nú snið­göngu skemmti­staða, meðal annars í Notting­ham, Edin­borg, Bristol og Exeter. Þeir krefjast þess að nætur­klúbbar grípi til að­gerða til að koma í veg fyrir að fólki sé byrlað, meðal annars með betri gæslu dyra­varða.

Lög­reglu í Notting­ham­sýslu og Vestur-Jór­víkur­sýslu hafa borist til­kynningar um slíkar á­rásir og eru til­felli til rann­sóknar í Skot­landi.

Eigum skilið að skemmta okkur

„Við eigum skilið að hafa GAMAN er við förum út. Það er ekki sann­gjarnt að upp­lifun okkar af djamminu séu litaðar af ótta, á­hyggjum og kvíða um að okkur gæti verið byrlað“, segir í yfir­lýsingu frá hópnum Girls Night In á Insta­gram.

Skipu­leggj­endur í Notting­ham segja í sam­tali við breska dag­blaðið In­dependent að fyrst hafi sögur af sprautu­á­rásum hljómað sem „sögu­sagnir“ og „líkt og úr hryllings­sögu“. Síðan hafi þeim borist til eyrna til­felli þar sem fólk sem þeim var kunnugt um væri að verða fyrir slíkum á­rásum.

„Þetta breytir jöfnunni nokkuð, sú stað­reynd að þú getur verið með­vitaður um að passa upp á drykkinn þinn. En þú getur eigin­lega ekki komið í veg fyrir að ein­hver sprauti þig. Ég held að þetta sé nýtt stig ótta fyrir stúlkur í Notting­ham og um allt Bret­land,“ segir há­skóla­neminn Franki­e, einn skipu­leggjanda snið­göngunnar.

Hin 19 ára gamla Zara Owen, fyrsta árs nemi við Notting­ham­há­skóla, segir í sam­tali við breska dag­blaðið In­dependent að hún hafi vaknað með „sáran, kveljandi sárs­auka“ í fót­leggnum og haltrað eftir að hún fór út á lífið í Notting­ham í síðustu viku. Auk þess mundi hún ekki eftir neinu eftir á­kveðinn tíma­punkt.

„Ég sagði við mömmu að mér væri illt í fót­leggnum. Hún hélt fyrst að ég hefði tognað eða eitt­hvað. Og vinir mínir voru sömu­leiðis ráð­villtir því þeir vita að ég drekk ekki mikið,“ segir Owen. „Ég hélt að kannski hefði verið byrlað fyrir mér, það virðist hræði­legt að halda það en var tals­vert lík­legt.“

Lög­reglu víða í Bret­landi hafa borist til­kynningar um sprautu­á­rásir með nauðgunar­lyfjum á skemmti­stöðum.
Fréttablaðið/Getty

Daginn eftir fann hún far eftir nál á fót­legg sínum og þrýsti á það. Því fylgdi mikill sárs­auki.

„Það sem hræðir mig mest til við­bótar fyrir að hafa verið byrlað er að það var gert með sprautu. Að sjálf­sögðu gæti ég borið HIV-smit eða lifrar­bólgu ef sprautan var skítug.“

Owen leitaði á bráða­mót­töku en gafst upp á biðinni eftir að vera þar í átta tíma og bíður enn eftir að komast til heimilis­læknis. Henni var bent á að fara á kyn­sjúk­dóma­deild.