Lækkun hefur mælst á yfirborði íshellunnar í Grímsvötnum en ekki er hægt að staðfesta með vissu að hlaup sé hafið, að sögn náttúruvársérfræðinga Veðurstofunnar.

Mun það ef til vill skýrast betur síðar í dag eða á morgun hvort sigið haldi áfram eða um sé að ræða óvissu í mælitækjum. Ekki hefur verið gripið til viðbúnaðar vegna mögulegs eldgoss en dæmi eru um að eldgos hefjist í Grímsvötnum eftir að hlaup fari af stað. Slíkt gerðist til að mynd árið 2004 og þar áður 1934 og 1922.

Verið að setja sig í stellingar

Vísindaráð Almannavarna fundaði nú í morgun og fór yfir gögn úr mælitækjum sem vakta Grímsvötn. GPS mælar sem staðsettir eru við Grímsvötn hafa sýnt örlítið sig sem getur þýtt að vatn sé farið að hlaupa fram.

„Menn eru að setja sig í stellingar svo allt sé tilbúið en að svo komnu máli er ekki tilefni til neins annars en að gera sig klárann eftir því hver þróunin verður næstu einn til tvo sólarhringana,“ segir Tómas Jóhannesson, jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofunni, í samtali við Fréttablaðið.

Engin hætta sé á ferðum vegna hlaupsins sem slíks.

„Það er ekki litið á þetta sem sérstaka almananvá en það er helst að hlaupið getur leitt til þess að þrýstingi létti af eldstöðinni og þá eru dæmi um að gos komi í kjölfarið. Þess vegna fylgjast menn mjög vel með þróun mála.“

Ekki búið að staðfesta aukna rafleiðni

Fram kemur í tilkynningu frá Veðurstofunni að engin merki séu um hlaupvatn í Gígjukvísl og enn á eftir að staðfesta hvort rafleiðni hafi aukist sem að jafnaði er skýrt merki um að hlaup sé hafið.

Eins sjást engin merki á jarðskjálftamælum um að hlaupvatn sé að brjótast fram. Því er of snemmt að segja til um hvort að hlaup sé hafið, að sögn náttúruvársérfræðinga.

Mun það eins og áður segir skýrast á næstu dögum með frekari gögnum, til dæmis með vísbendingum um hraðara sig, aukið vatnsrennsli og rafleiðni. Þegar hlaup hefst úr Grímsvötnum tekur það hlaupvatnið alla jafna þrjá til fimm daga að brjótast fram undan jökli.

Vísindaráð Almannavarna hefur aftur verið boðað til fundar á morgun.

Fréttin hefur verið uppfærð.