Guðjón Ingi Sigurðarson
Þriðjudagur 11. febrúar 2020
15.08 GMT

Í fyrsta skipti síðastliðinn áratug stóð útblástur koltvísýrings í stað á síðasta ári og hefur útblástur þróaðra ríkja ekki verið minni síðan seint á níunda áratugnum. Sér­fræðingar hjá International Ener­gy Agen­cy (IEA) vonast til þess að úblástur gróður­húsa­loft­tegunda hafi náð há­marki, þó að notkun á kolum, gasi og olíu þurfi að minnka mun hraðar en nú er.

Mæling á út­blæstri kol­tví­sýrings einum og sér er þó ekki full­kominn mæli­kvarði, þar sem ekki er tekið til­lit til annarra gróður­húsa­loft­tegunda. Sigurður Loftur Thor­la­cius, um­hverfis­verk­fræðingur hjá Verk­fræði­stofunni Eflu, segir að nær­tækara væri að líta til kol­tví­sýringsí­gilda en einungis kol­tví­sýrings.

Kol­tví­sýringsí­gildi er það þegar allar gróður­húsa­loft­tegundir hafa verið reiknaðar í í­gildi kol­tví­sýrings. Sé litið til slíkra gilda í stað kol­tví­sýringsins eins er því ekki víst að út­blásturinn hafi í raun staðið í stað. að sögn Sigurðar.

Þó að stöðnun í út­blæstri í kol­tví­sýrings sé vissu­lega já­kvæð er því ekki víst að á­stæða sé til þess að fagna strax, enda hefur út­blástur áður staðið í stað en svo aukist að nýju árið eftir.

Stöðnun er ekki nóg

„Við höfum séð það áður að losun hefur staðið í stað en svo bara aukist enn þá meira árið á eftir. Þannig að maður getur ekki fagnað sigri alveg strax,“ segir Sigurður í sam­tali við Frétta­blaðið. Menn hafi beðið lengi eftir að losun nái há­marki sínu og lækki í kjöl­farið. Fólk haldi alltaf að það sé handan við hornið. Hann muni því ekki trúa því að losun sé farin að minnka fyrr en hann taki á því.

Sigurður Loftur

Þá sé það heldur ekki nóg að losun standi í stað, þó það sé vissu­lega skref í rétta átt. Til þess að geta staðið undir mark­miðum Parísar­sam­komu­lagsins verði að sjást 5- 10 prósenta sam­dráttur í losun í heiminum á hverju ári.

„Ef við ætlum að reyna að ná mark­miðum Parísar­sam­komu­lagsins um að stöðva hnatt­ræna hlýnun við eina og hálfa gráðu, þá klárum við kvótann á átta árum ef við höldum losun bara í stað.“

Kola­­notkun eykst í Asíu

Sam­kvæmt greiningu Carbon­Brief, breksrar vefsíðu sem sérhæfir sig í umfjöllunum um umhverfismál, ber kola­notkun mesta á­byrgð á mengun af völdum jarð­efna­elds­neytis, olía næst­mest og gas minnst. Þó að brennsla á gasi sé ekki um­hverfis­væn virðist hún því vera skásti kosturinn þegar kemur að orku­vinnslu með jarð­efna­elds­neyti. Enda er stöðnun í losun rakin að hluta til þess að vest­ræn ríki hafi fært sig frá kolum yfir í gas.

Kort sem sýnir kolaorkuver í heiminum árið 2018. Gulur táknar starfandi kolaorkuver, grár táknar kolaver sem eru að loka, appelsínugulur táknar ný kolaver og fjólublár kolaver sem eru í byggingu.
Fréttablaðið/Skjáskot

Það ógnar þó þróuninni að út­blástur eykst enn hratt utan þróaðra landa. Sér­stak­lega á það við um þróunar­lönd í Asíu, þar sem notkun kola við orkur­fram­leiðslu hefur aukist. Er það sér­stak­lega rakið til þess að kol eru enn ó­dýrari kostur.

Við­nám í banda­rísku sam­fé­lagi

Minni út­blástur koltvísýrings má að hluta rekja til minni notkunar vestur­landa og annarra þróaðra ríkja á kolum til orku­fram­leiðslu. Í greiningu Carbon­Brief segir að til þess að til þess að kola­brennsla þurfi að minnka um næstum helming á næstu tíu árum eigi halda hnatt­rænni hlýnun „vel innan við tvær gráður“ með sem minnstum til­kostnaði.

Í frétt Financial Times um niður­stöður IEA er það sér­stak­lega nefnt að minni notkun á kolum og jarð­efna­elds­neytis í Banda­ríkjunum komi til þrátt fyrir að landið hafi dregið sig út úr Parísar­sam­komu­laginu.

„Það hefur náttúru­lega verið á­kveðið við­nám í sam­fé­laginu í Banda­ríkjunum. Margar borgir og fyrir­tæki sem hafa gefið út að þau muni halda á­fram að styðja við Parísar­sam­komu­lagið,“ segir Sigurður.


„Vonandi er þetta sam­fé­lagið að stíga réttu skrefin frekar en að hlusta á það sem Trump segir.“


Notkun á kolum við raf­orku­fram­leiðslu hefur minnkað í þróuðum ríkjum um 15-25 prósent og ekki hefur verið minni út­blástur í þróuðum ríkjum síðan seint á níunda ára­tugnum að sögn IEA. Má það að nokkru leyti rekja til þess að mikill vöxtur hefur verið í notkun sólar- og vindorku, en einnig til þess að kol hafa að miklu leyti vikið fyrir gasi, sem mengar mun minna en kol. Í fyrsta skipti í sögunni notuðu Evrópu­sam­bands­ríki meira gas en kol við raf­orku­fram­leiðslu.

Kjarn­orka skapar önnur vanda­mál

Þá er aukning í notkun kjarn­orku til fram­leiðslu raf­magns sagt hafa á­hrif á stöðnunina. Japanir eru á meðal þeirra ríkja þar sem sam­dráttur hefur orðið í út­blæstri kol­tví­sýrings og er það meðal annars rakið til þess að landið hefur endur­ræst kjarna­kljúfa sína, sem voru stöðvaðir eftir Fukus­hima slysið árið 2011.

KJarnorkuver í Japan hafa verið endurræst eftir Fukushima-slysið árið 2011.
Fréttablaðið/GettyImages

Hvort að kjarn­orku­notkun sé lausn við út­blæstri segir Sigurður að svo væri ef einungis væri horft til lofts­lags­mála. Lofts­lags­málin séu hins vegar ekki eina um­hverfis­málið sem takast þurfi á við og kjarn­orku fylgi ýmis önnur vand­mál; bæði hvað varðar úr­gang, slysa­hættu og þá stað­reynd að verið væri að notast við tak­markaða auð­lind.


„Af hverju í ó­sköpunum þá ekki að demba sér í endur­nýjan­legt raf­magn, endur­nýjan­lega orku­vinnslu sem flest lönd eiga að geta gert í ein­hverju formi.“


Neyslan skiptir líka máli

Eitt af því sem vest­ræn ríki geta gert er að horfa ekki bara á kol­efnis­spor sinna ríkja heldur á kol­efnis­spor neyslunnar. „Þá er horft á kol­efnis­spor neyslu íbúa landsins óháð því hvar hún á sér stað,“ segir Sigurður. Í því felst að líta til þess hvort að varan sem verið er að neyta sé fram­leitt innan­lands eða er­lendis.

Sé litið til þessa komi í ljós að neyslu­drifið kol­efnis­spor vest­rænna ríkja sé tölu­vert hátt og stór hluti losunarinnar komi til vegna neyslu íbúa. Horfi vest­ræn ríki á þennan hluta kol­efnislosunar þá gætu þau farið að setja kröfur á hvernig vörur sem fluttar eru inn séu fram­leiddar.

Slíkt getur ó­neitan­lega verið kostnaðar­samt fyrir þróunar­ríki, en Sigurður segir að einnig sé hægt að styðja við þau með peningum. „Við eigum að styðja þróunar­ríki með bein­hörðum peningum.“ Til dæmis hafi Noregur gert mikið við að styðja þróunar­ríki í orku­skiptum.

Neysla vesturlandabúa skiptir miklu máli þegar horft er til þess að minnka útblástur.
Fréttablaðið/GettyImages

Spurður að því hvort að það geti ekki talist kald­hæðnis­legt í ljósi aukinnar olíu­fram­leiðslu landsins segir hann að svo sé. „Af­skap­lega.“

„Það má heldur ekki vera þannig að vest­ræn ríki séu bara að leggja á­herslu að styðja við önnur ríki og taka ekki til heima hjá sér.“

Er þá hætta á að vestur­lönd noti slíka að­stoð sem eins­konar synda­af­lausn?

„Það er hættan.“

Þörf á sam­drætti

Þó að vissu­lega sé já­kvætt að út­blástur standi í stað en aukist þá er ekki kominn tími á að opna kampa­víns­flöskuna því enn er langt í land. Áður hefur losun kol­tví­sýrings staðið í stað en svo aukist að nýju. Til þess að raun­veru­legur árangur náist eru sér­fræðingar sam­mála um að sam­dráttar sé þörf.

„Það sem við þurfum að sjá til að vera á pari við mark­mið Parísar­sam­komu­lagsins er að sjá sam­drátt um fimm til tíu prósent,“ segir Sigurður.

Athugasemdir