Jólin koma snemma í ár á höfuðborgarsvæðinu en bæði Reykja­víkur­­borg og Hafnar­fjörður vinna nú að því að koma upp jóla­­­ljósum á fjöl­­förnum stöðum, mun fyrr en venja er til. Markmiðið er að lífga upp á nokkuð dræma stemmningu bæjar­lífsins í miðju sam­komu­banni.

Borgar­­stjóri Reykja­víkur, Dagur B. Eggerts­­son, sagði í kvöld­fréttum Stöðvar 2 í gær að borgin myndi verða við á­skorun þeirra sem standa fyrir á­takinu „Sköpum líf í lokun“ og kveika fyrr á jóla­­­ljósunum í ár. Þau verða tendruð næstu helgi. Hafnar­fjarðar­bær er þó einu skrefi á undan borginni og hefur þegar kveikt á jóla­­­seríum á ein­s­taka trjám í mið­bænum.

Í til­­­kynningu frá Hafnar­fjarðar­bæ segir að á­­kveðið hafi verið að setja ljósin snemma upp í ár „í ljósi alls“. „Nú þegar hafa hafa jóla­­­ljós verið sett upp á nokkrum fjöl­­förnum stöðum í mið­bænum með það fyrir augum að gleðja augað og andann og lýsa upp skamm­­degið. Jóla­­bærinn Hafnar­fjörður er við það að detta í jóla­­­gírinn!“

Bæjar­búar eru þá hvattir til að taka þátt í því með bænum að „full­­klæða jóla­­bæinn Hafnar­fjörð með því að setja jóla­­­ljósin upp snemma í ár“.

Í Reykja­­vík hefur starfs­­fólk borgarinnar nú þegar hafist handa við að undir­­búa næstu helgi og koma fyrir jóla­­­ljósum og skreytingum um mið­­borgina. Borgar­­stjórinn sagði þá að eftir því sem liði nær jólum myndi smátt og smátt bætast í skreytingarnar. „Við fáum jóla­­köttinn og jóla­­­tré en það sem liggur til grund­vallar er að ef við höfum þurft á jólum að halda eitt­hvað ár er það sannar­­lega þetta ár.“