Jarð­skjálfti af stærðinni 3,0 varð í Ör­æfa­jökli klukkan rétt rúm­lega 10 í morgun og fannst hann á bæjum í ná­grenni jökulsins. Skömmu síðar mældist annar skjálfti, 1,3 að stærð, á svæðinu.

Í til­kynningu frá náttúru­vá­r­sér­fræðingi Veður­stofu Ís­lands fylgist sólar­hrings­vakt Veður­stofunnar með þróun mála á svæðinu.

Rétt fyrir klukkan 9 í morgun varð skjálfti af stærð 2,6 á þessum slóðum og fannst hann einnig í byggð. Minni skjálftar urðu á svæðinu í gær.

Í til­kynningu frá Veður­stofu Ís­lands kemur fram að síðast hafi orðið skjálfti stærri en 3,0 í Ör­æfa­jökli í októ­ber 2018. Haustið 2017 og fram í árs­byrjun 2019 urðu hrinur í fjallinu með nokkru milli­bili en síðan þá hefur verið frekar ró­legt á þessum slóðum.

Ör­æfa­jökull er í sunnan­verðum Vatna­jökli og er hæsta fjall landsins. Fjallið er virk eld­keila í ætt við Eyja­fjalla­jökul og Snæ­fells­jökul, en sam­kvæmt vefnum eld­gos.is er Ör­æfa­jökull all­miklu stærri og rúm­máls­meiri en aðrar ís­lenskar eld­keilur.

Að­eins hefur gosið tvisvar í Ör­æfa­jökli frá land­námi, árin 1362 og 1727. Fyrra gosið var öflugt og var magn gos­efna sem kom úr því um 30 sinnum meira en í Eyja­fjalla­jökuls­gosinu árið 2010. Síðara gosið var mun minna og svipað að um­fangi og Eyja­fjalla­jökuls­gosið árið 2010.

Fjallað er um skjálftana á Facebook-síðu Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands þar sem fram kemur að Öræfajökull sé talin ein hættulegasta eldstöð landsins. Er bent á að gosið sem varð þar á 14. öld sé stærsta sprengigos á Íslandi frá landnámi.