Snarpur skjálfti fannst á höfuðborgarsvæðinu klukkan 13:51 og svo aftur klukkan 14:12. Að sögn sérfræðings hjá Veðurstofunni var sá fyrsti 3,8 að stærð og voru upptök hans um einn kílómeter suðvestur af Keili. Það er nærri upptökum annarra skjálfta í dag og síðustu dag. Skjálftinn mældist á 7,5 kílómetra dýpi. Sá seinni mældist 4,2 að stærð og mældist einnig nærri Keili.
Skjálfti af stærðinni 4,1 mældist skammt frá Keili skömmu eftir hádegi í dag en skjálftinn átti upptök sín rúmlega þrjá kílómetra suðvestan af Keili. Stærsti skjálftinn sem mælst hefur frá miðnætti varð klukkan hálf tvö í nótt á svipuðum stað og var 4,9 að stærð. Alls hafa mælst um 1.500 skjálftar mælst frá miðnætti og yfir 20 skjálftar yfir 3,0 að stærð.
Jarðskjálftahrinan enn í gangi
Kröftug jarðskjálftahrina hófst á Reykjanesskaga þann 24. febrúar með skjálfta af stærð 5,7 og öðrum 5,0 að stærð. Þann 27. febrúar varð skjálfti 5,2 að stærð. Þann 28. febrúar kl. 00:15 varð skjálfti 4,7 að stærð.
Í tilkynningu frá Veðurstofunni kemur fram að svona hrinur séu ekki einsdæmi. Á þessu svæði mældust um fimm skjálftar 10. júní 1933 sem voru af stærð 4,9 til 5,9 við Fagradalsfjall.
Fréttin hefur verið uppfærð klukkan 14:04, klukkan 14:11, klukkan 14:21 og klukkan 14:26.