Snarpur jarðskjálfti varð á Reykjanesi nú klukkan 12:06 í dag en skjálftinn fannst vel á höfuðborgarsvæðinu og allt norður í Borgarnes. Þó nokkrir eftirskjálftar hafa fundist í kjölfarið, nokkrir yfir 3 að stærð.

Að því er kemur fram á vef Veðurstofu Íslands benda fyrstu niðurstöður til þess að skjálftinn hafi verið 4,4 að stærð en skjálftinn átti upptök sín tvö kílómetra frá Fagradalsfjalli.

Þá mældist annar skjálfti klukkan 12:10 á svipuðum stað en sá skjálfti var um 3,6 að stærð. Klukkan 12:14 mældist síðan skjálfti af stærðinni 3,3 á og enn annar skjálfti fannst vel um 12:24 en sá skjálfti var 4,1 að stærð samkvæmt bráðabirgðarniðurstöðum Veðurstofunnar.

Að sögn náttúruvársérfræðinga Veðurstofunnar hafa um þúsund skjálftar mælst frá því um miðnætti en sérfræðingar funda nú með almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Enn sem komið er bendir ekkert til gosóróa.

Skjálftarnir eru hluti af jarðskjálftahrinu á Reykjanesskaga sem hófst á miðvikudag en stærsti skjálftinn varð 10:05 á miðvikudag og var sá skjálfti 5,7 að stærð. Frá því að hrinan hófst hafa fleiri en fimm þúsund skjálftar mælst á svæðinu.

Fréttin verður uppfærð.