Einar Svein­björns­son, veður­fræðingur á Veður­vaktinni, segir að búast megi við sam­bæri­legu veðri á að­ventunni og hefur sést undan­farið. Miklar sveiflur í hita­stigi og tölu­verð úr­koma.

„Það er búið að vera dá­lítið köfl­ótt, sér­stak­lega hvað hitann varðar. Hitinn hann fer upp og niður í sí­fellu og það er svo sem ekkert lát á því. Það er eitt­hvert svona veður­lag sem við sjáum í spám, að minnsta kosti út næstu viku,“ segir Einar.

„Þegar hitinn er að fara svona upp og niður þá er úr­koman ýmist að falla sem rigning, slydda eða snjór með til­heyrandi hálku. En það eru engin stór­viðri sem við sjáum fyrir utan þennan snarpa hvell á Austur­landi sem er spáð í nótt.“

Að sögn Einars er von á stormi í nótt á Austur­landi sem er af­leiðing hæðar­svæðis sem hefur hreiðrað um sig Suð­vestur af landinu.

„Já, það er stormur í nótt og það er búið að spá hviðu­veðri á Suð­austur­landi í nótt og fram á morgun. Það er eitt af því sem getur gerst þegar þessi hæð er svona við­varandi, það geta sprottið upp lægðir fyrir norðan Ís­land og dýpkað og farið hérna suður með ströndinni. Það er ein slík á leiðinni. Það verður ansi hvasst í nótt og fram á morgun í norð­vestri. Það er þessi hvellur og svo lagast veðrið aftur.“

En ekkert til að hafa á­hyggjur af?

„Nei, ekki þannig lagað séð. Það er auð­vitað fyrst og fremst ef ein­hverjir verða á ferðinni í nótt þá þurfa þeir að huga að þessu og kannski haga ferðum sínum. En það er nú stundum sem getur hvesst á Aust­fjörðum. Það var nú bara í fyrri­nótt sem ein­hver garð­skúr fauk í Nes­kaup­stað og brak fór um allt. Þannig það þarf oft ekkert mikið til en þetta er ekkert stórt og mikið,“ segir Einar.

Gular og appel­sínu­gular við­varanir

Gul við­vörun verður í gildi á Aust­fjörðum og Suð­austur­landi frá og með klukkan níu í kvöld og tekur appel­sínu­gul við­vörun við á Suð­austur­landi frá mið­nætti til næsta morguns.

Í at­huga­semdum veður­fræðings Veður­stofunnar er varað við stormi austan Ör­æfa og á sunnan­verðum Aust­fjörðum í kvöld og mjög snörpum vind­viðum sem valdið geti öku­mönnum vand­ræðum.

„Gengur í norð­vestan hvass­viðri eða storm austan Ör­æfa og á sunnan­verðum Aust­fjörðum í kvöld, en einnig mjög snarpar vind­viður þar. Getur valdið öku­mönnum vand­ræðum, einkum ef öku­tækin taka á sig mikinn vind. Dregur úr vindi síð­degis á morgun.“