Sænskir bændur kvarta sáran yfir hækkandi raforku- og eldsneytisverði. Að sögn Stefan Gård, formanns Félags sænskra kúabænda er staðan nú verri heldur en sumarið 2018 þegar þurrkar og skógareldar settu sænskan landbúnað á hliðina.
Staðan hjá sænskum bændum er erfið um þessar mundir, að sögn Stefan Gård, formanns Félags sænskra kúabænda. Raforka og eldsneyti hefur sjaldan verið dýrari, á sama tíma og flutningskostnaður á fóðri og mykju hækki ört.
Stefan fullyrðir í samtali við fréttastofu Sænska ríkissjónvarpsins að rekstarkostnaður á hans eigin búi hafi hækkað um milljón sænskra króna undanfarið, á ársgrundvelli. Hækkunin samsvari rúmlega fjórtán milljónum íslenskra króna.
Hann segir að hækkunin skili sér líka í snarpri hækkun á verði sænskrar mjólkur- og kjötafurða, sem svari til tveggja sænskra króna hækkun á mjólkurkíló og sjö til tíu sænskra króna hækkun á kílóinu af kjöti.
„Ef sænskur almenningur og stjórnvöld vilja halda í sænska framleiðslu, þá þarf að bregðast við núna,“ segir Stefan.