Þor­valdur Þórðar­son, jarð­vísinda­maður hjá Jarð­vísinda­stofnun Há­skóla Ís­lands, segir að gosið í Geldingar­dölum sé enn litla gosið sem það var í upp­hafi, þrátt fyrir að fleiri gos­op hafi opnast í morgun. Val­garður Gísla­son, ljós­myndari hjá Frétta­blaðinu, segist aldrei hafa upp­lifað annað eins og þegar sprungurnar opnuðust á svæðinu í morgun.

„Þetta bara opnaðist korteri áður en ég kom hingað,“ segir Val­garður. „Þetta er eigin­lega enn­þá að opnast. Þetta er eins og við segjum, STUR­LAÐ. Ég er svona tíu metrum frá þessu,“ segir Val­garður sem fer með öllu að gát og er með gas­mæli á sér.

„Það er allt á fullu hérna. Ég hef aldrei upp­lifað jafn mikinn kraft á ævi minni í neinu,“ segir Val­garður. „Mér var svo heitt í framan að þú trúir því ekki. Ég þarf ekki að fara til Tenerife næstu tíu árin,“ segir hann léttur. Myndir og mynd­bönd Val­garðs af svæðinu má horfa á hér að neðan.

Engin breyting í virkninni á hinum gígunum

Þorvaldur segir athyglisvert að gosið virðist menga meira í dag en áður.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Þor­valdur segir að það hafi verið fyrir­séð að frekari sprungur myndu opnast á svæðinu. Hópur frá jarð­vísinda­stofnun sé á svæðinu og hafi fylgst með hræringunum í dag.

„Kviku­gangurinn þarna undir er á ein­hverjum smá yfir­þrýstingi og á­stæðan sú að inn­flæðið inn í hann hefur verið eitt­hvað meira en út­flæðið,“ segir Þor­valdur. Út­flæðið hafi verið í kringum 8-10 rúm­metra á sekúndu en inn­flæðið 15 þegar fyrstu nýju gígarnir opnuðust.

„Og ég held að þetta sé í raun og veru bara svörun við því. Á­stæðan er sú að við sjáum enga breytingu á virkninni á hinum gígunum. Það er alveg sama virkni og heldur bara á­fram, þetta er bara eins og ný við­bót,“ segir hann.

Valgarði varð eðlilega heitt í framan þar sem sprungurnar opnuðust.
Fréttablaðið/Valli

Megi líkja kerfinu við glas

„Kerfið virðist eiga eitt­hvað inni og það kemur svona upp. Kvikan er í raun bara að finna sér leið upp um sprungur sem eru fyrir,“ segir Þor­valdur. Lýsa megi að­stæðum nú við glas.

„Þú ert með tankinn þarna niðri, að­eins á yfir­þrýstingi og svo ertu búinn að stinga sogrörum ofan í hann. Og þú ert alltaf að bæta við sogrörum og allir að drekka úr sama glasinu. Þetta er dá­lítið svo­leiðis,“ segir hann.

Hversu hátt kvikan stendur í gígunum ráðist af því hversu vítt sogrörið sé. Spurður út í fram­haldið segir Þor­valdur að kerfið muni lík­legast ná jafn­vægi, nema að það fari að gefa í.

„Ef inn­flæðið vex þá heldur kannski þessi þróun á­fram, nýjar sprungur opnast og svona. En ef inn­flæðið helst í því horfi sem það er núna, nær flæðið á endanum ein­hverju jafn­vægi og þá bara flæðir þetta upp og út. En ef það fer að draga úr inn­flæðinu, sem­sagt inni í ganginn að neðan­verðu, þá fer að draga úr gosinu.“

Þor­valdur segir að sér sýnist sem kerfið hafi verið á ör­litlum yfir­þýstingi en leitast við að ná jafn­vægi. Ekki séu teikn á lofti um það að gosið muni auka í og jafn­vel stækka, þó ekki sé loku fyrir það skotið.

Mengun fannst í Hafnar­firði í gær

Er þetta enn krútt­lega gosið sem þetta var í byrjun?

„Þetta er enn­þá þetta mjög litla krútt­lega gos en mengunin hefur aukist að­eins. Þegar gígarnir koma þarna upp verður að­eins meira upp­streymi af gasi og það sést svo­lítið núna og eins og það sé að pumpa svo­lítið vel út,“ segir Þor­valdur.

Hann segist hafa heyrt af því að menn hafi fundið fyrir mengun í Hafnar­firði í gær. „Og þegar það er svona lítill vindur þá dreifist minna úr þessu og þetta getur breyst í þoka sem er með hærri styrk en meðal­talið og þá getur þetta farið yfir byggð og valdið ó­þægindum.

Mér finnst þetta at­hyglis­verð þróun, að menn hafi orðið fyrir ó­þægindum í Hafnar­firði í gær. Það er þróun sem maður átti svo­ sem alveg von á og kannski eins gott að í­búar á Reykja­nes­skaganum undir­búi sig undir það,“ segir Þor­valdur og vísar til mengunar frá gosinu.

Þorvaldur segir að meiri mengunar gæti frá nýjum sprungum.
Fréttablaðið/Valli
Eldgosið telst lítið á skala jarðfræðinnar en einkar mögnuð sjón fyrir viðstadda líkt og Valgarð.
Fréttablaðið/Valli