Skammt frá Rauðasandi á sunnanverðum Vestfjörðum er 650 m hátt Stálfjall. Eins og nafnið gefur til kynna er það snarbratt og minnir lagskipt stálið á stafla af pönnukökum. Um Stálfjall lá áður gönguleið milli Rauðasands og Barðastrandar sem bæði þótti erfið og hættuleg yfirferðar. Út frá Stálfjalli gengur klettum prýtt nes, Skor. Þarna var löngum eitt afskekktasta býli á Íslandi en í dag stendur eftir reisulegur viti. Í þröngri klettavíkinni var hættuleg lending en þaðan sigldi Eggert Ólafsson náttúrufræðingur í sína hinstu för með brúði sína þegar bátur þeirra fórst á Breiðafirði 1768. Matthías Jochumsson gerir þessum voveiflega atburði skil í frægu ljóði: „Þrútið var loft og þungur sjór, þokudrungað vor. Það var hann Eggert Ólafsson, hann ýtti frá kaldri Skor.“

Skor er steinsnar frá Stálfjalli en þarna var gömul lending.
Mynd/ÓMB

Í Stálfjalli eru mikil surtarbrandslög en austan undir Skorarhlíðum eru leifar af námum þar sem surtarbrandur var unninn 1916-1918. Surtarbrandur var notaður til hitunar í stað kola og þegar mest lét voru þarna fimm námagöng, þau lengstu 80 m og störfuðu hátt í 40 manns við vinnsluna. Hún lagðist þó fljótt af, ekki síst vegna þess hversu erfitt var að flytja surtarbrandinn úr námunum bæði sjó- og landleið. Hægt er að skoða surtarbrandsnámurnar og kynnast tilkomumiklu Stálfjallinu í leiðinni.

Til að komast niður að surtarbrandsnámunum verður að þræða skemmtileg einstigi.
Mynd/ÓMB

Gönguleiðin hefst við Melanes á Rauðasandi og liggur fram hjá Sjöundá, býli þar sem ein frægustu morð Íslandssögunnar voru framin 1802 og Gunnar Gunnarsson gerir skil í skáldsögu sinni Svartfugli. Frá Sjöundá liggur leiðin upp Sjöundárdal uns komið er að Ölduskarði í Stálfjalli. Þar býðst frábært útsýni yfir Breiðafjörðinn og norðanvert Snæfellsnes. Til að komast niður í Stálvík er haldið niður Skorarhlíðar og þræddar klettasyllur í austurátt uns komið er að bröttum grasbrekkum sem teygja sig nánast niður í fjöru. Þar er gangamunni sem oft felur sig á bak við hvönn og gras. Tilvalið er að taka með sér vasaljós og fara inn í námurnar til að virða fyrir sér surtarbrandslögin. Öruggast er að halda sömu leið til baka en fyrir vant göngufólk er hægt að hækka sig aftur og þræða einstigi í vestur að Skor og þaðan áfram eftir ströndinni að Sjöundá. Þessa heimleið er þó ekki ráðlegt að fara nema með staðkunnugum og er ekki fyrir lofthrædda, frekar en gangan niður Skorarhlíðar að Stálvík.

Það er upplifun að koma inn í surtarbrandsnámu.
Mynd/ÓMB