Jakob E. Jakobsson, einn eigenda Jómfrúarinnar og stjórnarmaður í Samtökum ferðaþjónustunnar, segir umræðu um verðlagningu í ferðaþjónustu hér á landi vera á villugötum. 

Mikið fjaðrafok hefur verið eftir fyrirlestur Þórarins Ævarssonar, framkvæmdarstjóra IKEA um okur ferðaþjónustunnar, en í erindi sínu hvatti Þórarinn ferðaþjónustubændur til að snarlækka verð á seldum mat og selja fremur meira magn. 

Smurbrauðið í Kauptúni og á Lækjargötu ekki sama smurbrauðið

„Ég er orðinn alveg ótrúlega þreyttur á þessum endalausa barlóm í ferðaþjónustuaðilum sem sjá ekkert nema svartnætti. Þeirra eina leið til að vera réttu megin við núllið er að hækka, hækka og hækka,“ sagði Þórarinn í samtali við Fréttablaðið um ræðu sína sem haldinn var á Landbúnaðarsýningu sem haldin var í Laugardalshöll um helgina.  

Í ræðunni sakaði hann ferðaþjónustuna um okur og talaði um hvernig IKEA jók sölu sína þrátt fyrir stóraukin laukakostnað. 

Jakob svarar ásökunum Þórarins um okur á Facebook-síðu sinni þar sem hann ber saman það smurbrauð sem boðið er upp á í Kauptúni og í Lækjargötu. 

„IKEA í Kauptúni selur sína útgáfu úr kæliborði, tilbúna á diski með plastfilmu yfir. Notað er gróft samlokubrauð, reyktur lax, harðsoðið egg í bátum, skorið grænmeti til skrauts og svo steinseljukvistur á toppinn. Ég gef mér að fá ef einhver hráefni í þessum rétti séu fullunnin á staðnum. Eggin keypt soðin, laxinn keyptur tílbúinn jafnvel í sneiðum o.s.frv.  Fólk sækir réttinn sjálft og bíður í röð eftir að fá að gera það. Sækist viðskiptavinir eftir aukinni þjónustu, svo sem drykk eða því að fá að greiða fyrir réttinn (fyrirfram) fer sú þjónusta fram yfir afgreiðsluborð. Rétturinn kostar kr. 695,“ skrifar Jakob. 

Sjá einnig: Þórarni nóg boðið: „Ég skammast mín fyrir Íslands hönd“

Matseðill, þjónusta og reikningurinn við borðið

„Jómfrúin selur sína útgáfu af matseðli. Rétturinn er útbúinn eftir pöntun, ferskur fyrir hvern og einn viðskiptavin. Notað er súrdeigsbrauð bakað af handverksbakaríi, laxinn er keyptur ferskur og síðan er hann rauðbeðu- og ákavítisgrafinn á staðnum. 

Rétturinn er svo fullgerður með snyrtilegum sneiðum af lárperu, ýmsum kryddjurtum, súraldinsneið og svo fer hálft linsoðið (poached) egg á toppinn og að lokum dillkvistur.  Vilji gestir á veitingahúsinu kaupa fleiri vörur er þeim þjónað til borðs með þær, af fagfólki í flestum tilfellum. Viðskiptavinurinn greiðir að lokum reikninginn við borðið,“ ritar Jakob, sem birtir einnig myndir af smurbrauðunum tveimur, sem bæði eru í grunninn, líkt og hann sjálfur segir – brauð með laxi. 

Sjá einnig: SAF svarar Þór­arni: Ó­þolandi að sitja undir slíkum að­dróttunum

Segir bæði brauðin eiga rétt á sér

Þá segist Jakob skauta framhjá mörgum þáttum sem hafa áhrif á verðlagningu fyrirtækja svo sem mun á leigu- og launa- kostnaði, magninnkaup og samlegðaráhrif. Eins bendir hann á að um sé ekki að ræða sömu vöru. 

„Ekki bara er varan sjálf mismunandi heldur er umhverfi, þjónusta, staðsetning og stemming gjörólík. EN báðar eiga þær fullan rétt á sér og eiga sinn stað á markaðnum. Verðbilið er að mínu viti hæfilegt, sanngjarnt og eðlilegt. Ef IKEA myndi selja á verði Jómfrúarinnar myndu líklega fáir versla þar. Ef Jómfrúin myndi selja á verði IKEA yrði staðurinn gjaldþrota. Þetta litla innlegg óska ég að setja fram án þess að alhæfa um einn né neinn, hvorki húsgagnaiðnaðinn né veitingabransann. Alhæfingar eru meinsemd í allri uppbyggilegri umræðu,“ ritar hann að lokum.