Bandaríski leikarinn Jussie Smollett, sem er sakaður að hafa falsað árás gegn sér, hefur verið ákærður af ákærudómstól í Illinois-fylki í Bandaríkjunum í 16 liðum. Hinn 36 ára gamli Smollett er einkum þekktur fyrir leik sinn í Empire-þáttaröðinni. Smollett er frjáls ferða sinna gegn tryggingu þar til að málið verður þingfest.

Smollett tilkynnti lögreglunni í Chicago að hann hefði orðið fyrir alvarlegri líkamsárás vegna kynþáttar síns og kynhneigðar, en Smollett er svartur á hörund og samkynhneigður. Sagði hann að tveir menn hefðu veist að sér og sett snöru utan um háls sér og hótað því að hengja hann, en í eldri tíð var það nokkuð algengt í Bandaríkjunum að svartir karlmenn voru hengdir án dóms og laga. Lögreglan tók í fyrstu kæru Smollett alvarlega, en fljótt leiddust líkur að því að engin slík árás hafi átt sér stað og að Smollett hafi farið með rangt mál.

Tveir bræður voru handteknir eftir kæru Smollett, en heimildir lögreglu hermdu að Smollett hafi þekkt mennina og borgað þeim 3.500 Bandaríkjadali, rúmlega 420 þúsund krónur, fyrir að sviðsetja árásina. Mönnunum var sleppt án ákæru.

Smollett er því m.a. ákærður fyrir að blekkja lögregluyfirvöld, en hann hefur alla tíð haldið fram sakleysi sínu. Lögmaður Smollett segir í samtali við CNN að Smollett haldi sakleysi sínu til streitu og segir lögmaðurinn að ákæruvaldið gangi fram mun harðar en eðlilegt séð. „Þessi óþarfa og hefnigjarna ákæra er ekkert annað en örvæntingarfull tilraun til að komast í fjölmiðla,“ er haft eftir Mark Geragos, lögmanni Smollett. Framleiðendur Empire-þáttaraðarinnar ákváðu eftir að málið kom upp að fella persónu Smollett, Jamal, úr síðustu tveim þáttum seríunnar. Ákvörðunin var tekin til að forða „frekari truflunar við tökur“, er haft  eftir einum framleiðenda.