Kínversk yfirvöld tilkynntu í gær um mikla aukningu dauðsfalla og sýkinga af völdum kórónaveirunnar sem nýlega var nefnd Covid-19.

Bjartsýnin, sem hafði gætt um að hægt hefði á fjölgun sýkingartilfella í Hubei-héraði þar sem veiran á upptök sín, reyndist mjög skammvinn.

Heilbrigðisyfirvöld í Hubei-héraði eru farin að taka saman og birta upplýsingar um þau tilfelli sem eru greind klínískt, en ekki eingöngu þau sem eru greind með prófum. Með þessu hafa verið greind mun fleiri tilfelli og það hækkað opinberar tölur yfir sýkta.

Kínverskur almenningur hefur víða gagnrýnt embættismenn fyrir að hafa ekki brugðist nægilega hratt og afgerandi við útbreiðslu hins nýja víruss. Í upphafi fullvissuðu yfirvöld almenning um að lítil sem engin hætta væri á að veiran smitaðist milli manna. Sú yfirlýsing var síðar dregin til baka. Íbúar Wuhan hafa gagnrýnt yfirfull sjúkrahús og skort á lækningavörum. Læknar sem deildu upplýsingum snemma um sýkingarhættu voru áminntir af lögreglu fyrir að „dreifa sögusögnum“.

Í fordæmalausri ráðstöfun til að hemja útbreiðslu sjúkdómsins hafa kínversk yfirvöld látið loka þeim borgum sem verst hafa orðið úti. Það þýðir að meira en 60 milljónir manna eru lokaðar inni. Í einu hverfi Shiyan-borgar í Hubei-héraði hefur verið lýst yfir „stríðsástandi“ sem hindrar íbúa í að yfirgefa eigið íbúðarhúsnæði í tvær vikur. Þar er hverfisnefndum ætlað að dreifa grunnnauðsynjum á ákveðnum tíma og á föstu verði, sem og að aðstoða íbúa við brýn lyfjakaup.

Samkvæmt upplýsingum frá Johns Hopkins-háskóla í Bandaríkjunum, sem tekur saman gögn frá öllum heiminum um veiruna, voru í gær um 1.400 látnir á heimsvísu af völdum veirunnar og 60 þúsund eru taldir smitaðir á heimsvísu. Ekkert bóluefni er til við veirunni og meðferð beinist að einkennum og ástandi sjúklinga.

Kona á níræðisaldri lést í Japan eftir sjúkrahúslegu frá því snemma í febrúar. Þar með er þriðja dauðsfallið staðfest utan meginlands Kína. Áður hafði verið sagt frá dauðsföllum á Filippseyjum og í Hong Kong.

Faraldurinn breiðist hratt út og mörg ríki hafa sett á ferðatakmarkanir gesta frá Kína, en þar eru meira en 99 prósent tilkynntra tilfella.