Nokkur aukning hefur orðið á Covid-19 smitum á Norðurlandi eystra undanfarna daga. Í gær greindust alls 14 ný smit, stór hluti þeirra sem greindust smitaður voru í sóttkví við greiningu en í mörgum tilfellum var fólk nýlega farið í sóttkví. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra.

Nú eru 64 í einangrun með virkt smit á Norðurlandi eystra og 231 í sóttkví. Öll smitin eru á Eyjafjarðarsvæðinu og nærri helmingurinn á Akureyri. 

Hermann Karlsson, aðalvarðstjóri í aðgerðastjórn Almannavarna á Norðurlandi eystra segir í samtali við Rúv að smitin séu flest rakin til heimasamkvæmis og jarðarfarar og þá hafi einnig komið upp smit hjá íþróttafélagi. Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær þá virðast smit dreifð víða á Akureyri.

Lögregla reynir að veita hraðar og öruggar upplýsingar en í gærkvöld féll niður flug til Reykjavíkur vegna veðurs og því þurfti að keyra með sýnin suður. Þetta varð til þess að niðurstöður bárust heldur seinna en ella.

„Við viljum senda sem öruggastar upplýsingar frá okkur og reynum að koma þessu út til ykkar eins hratt og mögulegt er en við þurfum alltaf smá tíma til að ná utan um ákveðna þætti. Það geta alltaf komið upp atvik sem að hafa áhrif á hvenær við fáum niðurstöður," segir í tilkynningu frá lögreglu.

Hertari aðgerðir

Vegna fjölgunar nýrra smita hefur verið gripið til hertra aðgerða. Á morgun tekur í gildi heimsóknabann á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Góðan dag. Birtum hérna póstnúmera listann á svæði okkar varðandi stöðuna í sóttkví og einangrun. Nokkur aukning hefur...

Posted by Lögreglan á Norðurlandi eystra on Thursday, 29 October 2020