Fjórir íbúar og tveir starfsmenn á Eir hjúkrunarheimili hafa nú greinst með COVID-19.

Þórdís Hulda Tómasdóttir, verkefnastjóri hjúkrunar- og gæðamála hjá Eir, greindi frá þessu í Morgunútvarpi Rásar 2 en í fyrradag kom fram að þrír íbúar og einn starfsmaður hafi greinst.

Var hæðinni sem um ræðir lokað samstundis að sögn Þórdísar og eru þeir sem hafa átt samneyti við umrædda aðila komnir í sóttkví. Er nú búið að loka af tvær hæðir þar sem gripið hefur verið til hertra sóttvarnaaðgerða.

Áður var búið að banna heimsóknir gesta á hjúkrunarheimilið fram til 6. október næstkomandi og koma á fót sérstakri COVID-deild þar sem sérstök aðstaða er fyrir þá íbúa sem hafa greinst.

Þórdís greindi frá því í Morgunútvarpinu að með tilkomu deildarinnar væru íbúarnir fjórir saman í einangrun og með sitt eigið starfsfólk. Hún sagði að stjórnendur á Eir hafi verið vel búin undir þessar erfiðu aðstæður.