Covid-19 faraldurinn er í miklum vexti í flest öllum Evrópulöndum og Svíþjóð er þar engin undantekning.

Í síðustu viku fjölgaði nýjum tilfellum um 70 prósent frá vikunni á undan. Anders Tegnell, sóttvarnalæknir Svíþjóðar sagði á blaðamannafundi í dag að aukning nýrra smita stafaði af aukinnu sýnatöku en að greinilega væri veiran að dreifa sér á ný í samfélaginu. Sænska ríkisútvarpið SVT greinir frá.

Gripið til aðgerða

Ástandið er einna verst á Skåne, í Uppsala og Stokkhólmi. Gripið hefur verið til hertra sóttvarnaaðgerða á þessum stöðum. Aðspurður sagði Tegnell að mögulega yrði gripið til enn harðari aðgerða á næstu dögum, viðræður væru í gangi á milli landlæknis og sóttvarnalæknis.

Aðgerðirnar eru þó ekki jafn strangar og eru í gildi í flestum Evrópulöndum en samkomubann hefur verið sett á og nú mega 50 koma saman en áður voru það 300. Þá er fólki ráðlagt að forðast almenningssamgöngur, verslanir og fjölmenna staði og fólk er hvatt til að vinna heima eins og hægt er.

Þessar reglur eru í gildi til 30. nóvember næstkomandi og verða þá endurskoðaðar.

Eins og greint hefur verið frá í fjölmiðlum hafa Svíar valið að fara aðra leið til að takast á við heimsfaraldurinn. Þar í landi hefur lífið að mestu gengið sinn vanagang. Líkamsræktarstöðvar, veitingastaðir og barir hafa verið opnar og ekki er gerð krafa um að bera andlitsgrímu.

Tæplega 116 þúsund virk smit

Í Svíþjóð eru nú alls 115.785 staðfest smit en nýgengni innanlandssmita er nú 146 á hverja 100 þúsund íbúa. Flest tilfellin hafa greinst í aldurshópnum 20-29 ára en einnig eru mörg tilfelli í hinum aldurshópunum. Alls hafa 5,918 einstaklingar látið lífið af völdum Covid-19 í Svíþjóð.

„Við erum að nálgast hættulega aukningu, dauðsföllum hefur ekki fjölgað mikið upp á síðkastið en það gæti farið að gerast," segir Tegnell.

Sjúklingum á gjörgæslu fjölgar

Álagið hefur aukist verulega á sjúkrahúsum í landinu síðustu vikuna. Sjúklingum á gjörgæslu hefur fjölgað um 21 á tveimur dögum. Þá voru 322 lagðir inn á sjúkrahús vegna veirunnar í gær.

Staðan alvarleg í Evrópu

Tegnell tekur fram á fundinum að staðan í mörgum löndum sé alvarleg.

„Smitum fer ört fjölgandi í mörgum löndum, ekki síst í Evrópu. Ástandið er sérstaklega varhugavert í Tékklandi, Belgíu og á Spáni."

Þá segir hann að mörg lönd séu í mun erfiðari stöðu núna en í fyrstu bylgjunni í vor.