Innanlandssmitum fær fækkandi á sama tíma og landamærasmitum fjölgar. Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir fór yfir nýjustu tölur greindra smita á upplýsingafundi almannavarna í dag.

„Við getum fljótlega farið að slaka frekar á hömlum hér innanlands.“

Frá 15. júní hafa 153 greinst með COVID-19 hér á landi. Um tvö til fjögur smit hafa greinst á daglega í vikunni og segir Þórólfur ánægjulegt að stór hluti greinist í sóttkví.

„Sem er ákveðið merki um að okkur sé að takast að ná aðeins utan um þessi tilfelli,“ sagði hann.

Aðrar pestir eru í gangi í samfélaginu að sögn Þórólfs og er um eitt prósent sjúklinga að sýna merki um kórónaveiruna samkvæmt Íslenskri erfðagreiningu.

Tilslakanir í pípunum

Þórólfur segir að smitrakningarteyminu hafi tekist vel að stöðva ný hópsmit.

„Mér sýnist að smitrakningateymið sé búið að ná aðeins utan um þetta og það takist að stöðva ný smit. Við erum með rakningu og greiningu sýningu í kringum þessi tilfelli þannig vonandi förum við ekkert að fá neinar stærri hópsýkingar.“ sagði hann og ítrekar að áfram þurfi að gæta vel að öllum varrúðarráðstöfunum innanlands.

„Þannig að við getum fljótlega farið að slaka frekar á hömlum hér innanlands. Ég held að það sé svona það sem er í pípunum núna.“

Aðgerðirnar við landamærin í sífelldri endurskoðun

Í byrjun þessarar viku tóku gildi hertar takmarkanir við landamærin. Allir komufarþegar eru skimaðir tvisvar við komuna til landsins og þurfa að fara í 4 til 5 daga sóttkví eftir fyrri sýnatöku. Þórólfur segir að orð hans hafi verið mistúlkuð, um að þessar aðgerðir myndu vera í gangi í einhverja mánuði eða jafnvel ár en hann segir slíkt fyrirkomulag vera stöðugt í endurskoðun.

„Að gefnu tilefni vil ég segja það að við erum einnig með aðgerðir á landamærum í sífelldri endurskoðun. Menn hafa túlkað orð mín svo undanfarið að ég teldi að nákvæmlega þessar aðgerðir sem nú eru í gangi þurfi að vera í einhverja mánuði eða ár en það er ekki það sem ég hef sagt. Heldur að það þurfi að vera einhvers konar aðgerðir á landamærunum. En eins og annað sem við erum að gera þá þarf það að vera í sífelldri endurskoðun.“