Rúmenarnir tveir sem eru smitaðir af COVID-19 og eru í haldi lögreglunnar, segjast ekki kannast við hina þrjá Rúmenana sem lögreglan hefur lýst eftir um helgina.

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir að mennirnir hafi hafnað því að þekkja eftirlýstu mennina í yfirheyrslum.

„Okkar menn kannast ekki við hina þrjá en ég veit ekki hvaða samtal hefur átt sér stað við þá sem var verið að taka,“ segir Oddur en lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók tvo aðra menn í dag. „Þeir eru allir frá Rúmeníu og þeir koma allir með sama flugi en þeir hafa svo sem ekki kannast við að tengjast.“

Lögreglan á Suðurlandi handtók smituðu mennina tvo ásamt einni konu á veginum við Rauðavatn. Þau þrjú gangast við því að þekkjast eðli málsins samkvæmt.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu talar hins vegar alltaf um sex manna hóp í sínum tilkynningum. Lögreglan lýsir enn eftir sjötta manninum sem ekki hefur fundist úr hópnum, Pioaru Alexandru Ionut, sem kom til landsins í fyrripart síðustu viku.

„Verkefnið er að tryggja að hann sé í sóttkví. Hann er talin hafa verið í samskiptum við þessa sem eru smitaðir,“ segir Oddur. „Hann gefur upp ákveðinn dvalarstað ,um hvar hann ætlar að vera í sóttkví, en hann er ekki þar.“

Nýbyrjaðir í starfi og beint í sóttkví

Af þeim fjórtán lögreglumönnum sem þurfti að fara í sóttkví voru 10 hjá lögreglunni á Suðurlandi. Fjórir af þeim voru nýbyrjaðir í sínu starfi í sumarafleysingum.

„Það er hundfúlt að vera lokaður af frá samfélaginu í hálfan mánuð hvort sem þú ert nýbyrjaður eða ekki. Fólk sem er með sínar fjölskyldur, með lítil börn og svoleiðis. Samfélagið nýbúið að opnast og fólk með plön um að gera eitthvað skemmtilegt með fólkinu sínu,“ segir Oddur.

Spurður um hvort það verður erfitt að leysa vaktirnar þeirra, segir hann svo ekki vera enda mjög samstilltur hópur. „Vaktirnar leysast. Við erum í fyrsta lagi með einvala lið sem er samstillt. Menn hafa að eigin frumkvæði boðist til að koma inn úr sumarfríum eða fresta fríum. Skipulagið og flottur mannskapur gerir þetta allt viðráðanlegt,“ segir hann að lokum.