Fjöldi vísinda­manna telur lík­legt að nú­verandi bylgja far­aldursins, drifin á­fram af Omíkron-af­brigði kórónu­veirunnar, muni lægja jafn hratt og hún þaut af stað. Þeir telja blikur vera á lofti um að bylgjan sé búin að ná há­punkti sínum í Bret­landi og nálgist hann í Banda­ríkjunum.

Smit­fjöldi hefur verið gríðar­lega hár um allan heim og slegið hvert metið á fætur öðru. Nú telja vísinda­menn að þetta bráð­smitandi af­brigði fari fljót­lega að verða uppi­skroppa með mann­fólk.

Af­brigðið greindist fyrst í Suður-Afríku fyrir um einum og hálfum mánuði síðan en þar hafa smit­tölur verið á stöðugri niður­leið eftir að hafa náð toppi sínum um miðjan desember.

Þróun kórónuveirusmita í Suður-Afríku frá upphafi faraldursins.
Skjáskot/Worldometers

„Þetta mun fara jafn hratt niður og það fór upp,“ segir Ali Mok­dad, prófessor í lýð­heilsu­vísindum við Was­hington há­skóla við frétta­stofu AP News.

Raun­veru­legur fjöldi smita marg­faldur

Sam­kvæmt spá­líkani Was­hington há­skólans munu smit­tölur í Banda­ríkjunum ná há­punkti um ní­tjánda janúar og svo falla hratt niður. „Ein­fald­lega vegna þess að allir sem gátu smitast munu hafa smitast,“ að sögn Mok­dad.

Þá segir Mok­dad einnig lík­legt að raun­veru­legur fjöldi smita sé marg­faldur fjöldi þeirra sem greinast. Það hefur Kári Stefáns­son einnig haldið fram en Ís­lensk erfða­greining fer nú af stað með rann­sókn sem hefur það að mark­miði að greina raun­veru­legt hlut­fall þeirra sem smitast hafa af veirunni á Ís­landi.

Al­þjóða­heil­brigðis­stofnunin hélt því fram í gær að lík­lega verði önnur hver manneskja í Evrópu smituð af Omíkron innan næstu tveggja mánaða. Mok­dad og annað vísinda­fólk telur lík­legt að á þeim tíma­punkti verði fáir eftir ó­smitaðir.

Tvær suður-afrískar rann­sóknir hafa gefið til kynna að Omíkron af­brigðið valdi mun fleiri ein­kenna­lausum til­fellum heldur en fyrri af­brigði, sam­kvæmt frétt Reu­ters. Það geti út­skýrt að ein­hverju leiti hve hröð út­breiðsla hefur verið.

Omíkron gæti verið vendi­punktur

Margir munu enn smitast á niður­leið bylgjunnar auk þess sem spítalar víðs vegar um heim hafa þegar verið bornir ofur­liði. Eins munu ekki öll lönd ná há­punktinum á sama tíma og því eiga sum lönd lengra í land en önnur.

Shabir Mahdi, deildar­for­seti heil­brigðis­vísinda við Wiwa­ters­rand há­skólann í Suður-Afríku, segir að þau lönd sem setji harðar sam­komu­tak­markanir munu ekki endi­lega sjá færri smit en önnur lönd, heldur muni smit frekar dreifa sér yfir lengra tíma­bil.

Lauren Ancel Meyers, fram­kvæmdar­stjóri Co­vid-19 líkana­t­eymis við Texas há­skóla, segir Omíkron mögu­lega vera vendi­punkt í far­aldrinum. Mikill fjöldi smita sam­hliða nýjum lyfjum og háu hlut­falli bólu­setninga geti gert veiruna með­færi­legri.

Hinn mögu­leikinn væri að annað og verra af­brigði láti sjá sig í fram­tíðinni.