Sund­ferðir hafa löngum verið ein upp­á­halds af­þreying Ís­lendinga og veltir fólk nú vöngum hvort meiri eða minni hætta sé á að smitast af CO­VID-19 kóróna­veirunni á sund­stöðum en annars staðar. Í til­kynningu land­læknis kemur fram að ekki sé mælt með að fólk sæki sund­staði þegar smit fara að verða út­breidd í sam­fé­laginu.

Að­stoðar­maður sótt­varna­læknis, Júlíana Héðins­dóttir, segir hins vegar veiru­sýkingar ör­sjaldan vera raktar til sund­staða. Ekki er vitað um dæmi þess að slík smit hafi orðið hér á landi, þar sem eftir­lit er al­mennt mjög gott með klór­styrk í sund­laugum.

„Veiran sem um ræðir er "aumingi" gagn­vart sótt­hreins­efnum, þar með talið klór, og er ó­lík­legt að vatnið sem slíkt verði vanda­mál í tengslum við far­aldurinn,“ segir Júlíana í sam­tali við Frétta­blaðið.

Var­úðar skal gætt í gufu og potti

„Það er miklu frekar þrengslin og snertingin við aðra í pottunum og gufunni sér­stak­lega sem getur valdið því að smit eigi sér stað á sund­stöðum.“ Júlíana bendir einnig á mikið sé um yfir­borð sem margir snerti á sund­stöðum og því mikil­vægt að gæta að hand­hreinsun þar eins og annars staðar.

Ekki er sam­komu­bann í gildi á Ís­landi en ekki er úti­lokað að gripið verði til slíkra að­gerða meðan unnið er að því að stemma stigu við út­breiðslu veirunnar hér á landi. Al­mennt er mælt gegn því að í mikilli ná­lægð við aðra, sér­stak­lega þegar flensu­ein­kenni fara að gera vart við sig.

Sundkappar þurfa ekki að hafa áhyggjur af smiti í vatninu.