Smitin tvö sem greindust í gær utan sóttkvíar tengjast. Um er að ræða tvo starfsmenn matvælafyrirtækis á höfuðborgarsvæðinu. Fyrst var greint frá á RÚV. Þar kemur fram að nú sé verið að skima hundrað starfsmenn fyrirtækisins. Niðurstaða úr skimun er væntanleg á morgun.

Samkvæmt heimildum blaðsins eru 20 einstaklingar hjá fyrirtækinu í sóttkví.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, sagði í samtali við RÚV að það væri ekki ljóst hvernig smitin barst á milli starfsmanna því að smitvarnir hafi virst í lagi. Starfsmenn fyrirtækisins eru ekki allir að vinna á sama stað en aðalsetur fyrirtækisins er á höfuðborgarsvæðinu. Að sögn Víðis þarf fólk ekki að hafa áhyggjur þótt um sé að ræða matvælafyrirtæki.