Smitin sjö sem greindust í gær eru öll meðal um­sækj­enda um al­þjóð­lega vernd sem búa í sama bú­setu­kjarna á höfuð­borgar­svæðinu. Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir stað­festir þetta í sam­tali við Frétta­blaðið.

DV greindi fyrst frá. Smitrakning gengur vel að sögn Þór­ólfs. Um afmarkaðan hóp sé að ræða og gömul smit líklega þarna á meðal. Ein­staklingar í þessum hópi eru í for­gangi vegna bólu­setninga. Þór­ólfur segir að mis­vel gangi að fá þá til þess að mæta í bólusetningu.

„Mér hefur verið tjáð það að það sé stór hluti af þessum hópi sem að vilji ekki bólu­setningu,“ segir Þór­ólfur. Um sé að ræða fólk með mis­munandi bak­grunn og úr mis­munandi menningar­heimum.

„Svo kann að vera að fólk líti svo á að bólu­setning muni breyta þeirri stöðu sem hælis­leitandi og þannig margt sem spilar þarna inn í. Ég hef svo sem ekkert fyrir mér í því en er sagt þetta af þeim sem þekkja til,“ segir Þór­ólfur.

Að­spurður að því hvers vegna hópurinn sé í for­gangi hvað varðar bólu­setningu segir Þór­ólfur að það sé meðal annars vegna þess að upp kom hóp­sýking meðal hælis­leit­enda á síðasta ári og þar sem hópurinn er við­kvæmur og þarf á fé­lags­þjónustu að halda.

Þá segir Þór­ólfur að í hópi þeirra sem greindust í gær hafi eitt­hvað verið um gömul smit. Smitin séu af­mörkuð og rakning gengur vel. „Tveir eða þrír gætu verið með gamalt smit, vegna þess að sumir þarna hafa lík­lega verið lengi með þessi ein­kenni og líta öðru­vísi augum á CO­VID en þorri al­mennings gerir,“ segir Þór­ólfur.