Sá eini sem var ekki í sótt­kví við greiningu í gær af þeim sau­tján sem greindust með kórónu­veiruna innan­lands var „í rauninni“ í sótt­kví að sögn Jóhanns Björns Skúla­sonar, yfir­manns smitrakningar­t­eymis al­manna­varna.

Þær tölur sem fjöl­miðlar fá frá al­manna­vörnum um helgar eru alltaf gefnar með fyrir­vara um að þær séu bráða­birgða­tölur. Í þessu til­felli segir Jóhann ekki úti­lokað að tölurnar sem gefnar voru í dag verði lag­færðar og allir þeir sem greindust skil­greindir sem ein­staklingar í sótt­kví við greiningu.

Hann á þó erfitt með að út­skýra til­fellið ná­kvæm­lega, enda hefur stefnan verið að tjá sig ekki um ein­staka mál. „Það er smá flækju­stig með þetta eina smit utan sótt­kvíar,“ segir Jóhann. „Sko, þetta er í raun skráningar­legs eðlis hjá okkur. Þessi ein­stak­lingur tengist fyrra smiti og var í raun bara í sótt­kví svo að segja og hafði allavega haldið sig alveg til hlés. Það hefur alla­vega enginn orðið út­settur af honum.“

Jóhann segir það vissu­lega fagnaðar­efni að af þeim 27 smitum sem hafi greinst síðustu tvo sólar­hringa hafi að­eins tvö greinst utan sótt­kvíar og eitt þeirra sé um­rætt smit í dag, þar sem ljóst er að við­komandi hafi haldið sig til hlés um tíma og fleiri ekki verið út­settir fyrir smiti frá honum.

Mikilvægt að slaka ekki á

Að­spurður hvort smitrakningar­teyminu hafi tekist að ná utan um hóp­sýkingarnar tvær sem greint hefur verið frá; annars vegar á leik­skólanum Jörfa, sem er stærst, og hins vegar í tengslum við matvælafyrirtækið Íslenskt sjávarfang, segist Jóhann vona það.

„Hins vegar getum við bara brugðist við því sem kemur til okkar og ég held okkur hafi tekist það vel í þessu til­felli en svo getur alltaf verið eitt­hvað sem fer fram hjá okkur og kemst ekki upp á yfir­borðið. Það verður bara að koma í ljós.“

Hann óttast því enn að veiran sé dreifð um sam­fé­lagið og brýnir fyrir fólki að taka fréttum um meiri­hluta smita í sótt­kví ekki sem til­efni til að slaka sjálft á eigin sótt­vörnum. Þannig sé nauð­syn­legt að sem flestir sem finni fyrir nokkrum ein­kennum drífi sig í sýna­töku svo hægt sé að kveða veiruna niður sem fyrst.