Hærra smithlutfall er hjá leikskólakennurum og starfsfólki í daggæslu en nokkrum öðrum hópi í Danmörku.
Frá þessu er greint í frétt á vef danska miðilsins DR en þar er vísað til rannsóknar sem framkvæmd var af danskri lyfjafræðirannsóknarstofnuninni Statens Serum Institut. Tímabilið sem miðað er við er frá 20. desember til 26. desember, yfir hátíðirnar.
Í Danmörku í heild sinni var á tímabilinu smithlutfallið 5,89 prósent. Smithlutfallið meðal starfsfólks vöggustofa var 7,47 prósent, 5,87 prósent fyrir leikskólastarfsfólk og 6,87 prósent hjá starfsfólki blandaðra stofnanna.
Til samanburðar var hlutfallið 2,32 prósent hjá starfsfólki heilbrigðisstofnana. Það er þó tekið fram í fréttinni að í samanburði á hópunum verði að taka til greina að hlutfall heilbrigðisstarfsfólk sem hefur farið í örvunarbólusetningu er um 74 prósent á meðan hlutfallið er um 39 prósent í leikskólum og um 33 prósent á meðal starfsfólks í vöggustofum.
Vill takmarka fjölda barna
Talað er við Anne Grethe Rosenberg í fréttinni, formann kennarasambands í Bupl á austur-Jótlandi, sem segir að það sama hafi gerst í síðasta samkomubanni, þá hafi starfsfólk skóla og leikskóla verið í mikilli smithættu. Rosenberg hvetur stjórnmálamenn til að endurskoða takmarkanir innan skólanna og leggur til að til dæmis verði sett takmörk á það hversu mörg börn mega mæta og hversu mörg börn mega vera á hvern starfsmann. Ef ekki fáist starfsfólk til að hugsa um börnin þá telur hún réttast að loka þeim skólum.
Yfirlæknir á smitsjúkdómum á háskólaspítalanum í Árósum segir ekkert koma á óvart við þetta háa hlutfall. Börn séu hátt hlutfall þeirra sem eru smituð núna og það segi sig sjálft að ef að fólk vinni í miklu návígi við börn þá séu þau í meiri hættu á að smitast. Hann segir það mikilvægasta að halda heilbrigðisstofnunum opnum en að mögulega geti það verið sniðugt að takmarka hversu margir eru á einum fermetra í leikskólum ef takmarkið er að fækka smitum.