Í tilkynningu til nemenda í HR kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá smitrakningarteymi notaði nemandi HR, sem síðar greindist með Covid19, lesaðstöðu á 2. hæð í Sólinni á miðvikudaginn, 16. september.

Smitrakningarteymið hefur því óskað eftir því að nemendur sem notuðu lesrými þar á miðvikudaginn, fari í skimun sem fyrst, gæti mjög vel að persónulegum sóttvörnum og komi alls ekki í skólann ef þeir finna fyrir einkennum. Samkvæmt nemanda sem var í lesrýminu frá um klukkan 14 til 18 umræddan dag var troðfullt af nemendum í rýminu.

Þá er tekið fram að öll vinnurými í skólanum, þar með talið í Sólinni, eru þrifin og sótthreinsuð að minnsta kosti einu sinni á dag.

Eins og komið hefur fram í fréttum þá hefur smitum fjölgað ört í samfélaginu undanfarna daga. Nokkur smit hafa greinst í HR en skimun Íslenskrar erfðagreiningar bendir til að smit sé ekki útbreitt innan háskólans. Á fimmtudaginn síðastliðinn höfðu alls sex nemendur verið greindir með veiruna.

Covid-viðbragðshópur HR hvetur alla nemendur til að þiggja boð Íslenskrar erfðagreiningar um skimum.

Þá kemur fram að ef breytingar verða á fyrirkomulagi smitvarna í háskólanum um helgina muni nemendur vera látnir vita eins fljótt og kostur er.