Einn einstaklingur sem greindist með Covid í vikunni hafði verið viðstaddur á kosningavöku Framsóknarflokksins sem fór fram í sal CCP á Granda á laugardagskvöldinu en þetta kemur fram í frétt mbl.is um málið.
Í skjáskoti af skilaboðum frá Framsókn, sem mbl.is birtir, er fólki þakkað fyrir komuna og látið vita af smitinu. „Einstaklingar útsettir fyrir smiti eru komnir í sóttkví og gestir eru vinsamlegast beðnir um að vera vakandi fyrir einkennum,“ segir í skilaboðunum.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í gær í viðtali á Bítinu að hann teldi líklegt að smitum myndi fjölga eftir helgina þar sem margir hafi ekki verið með hugann við sóttvarnir. Vísaði hann sérstaklega í kosningavökur víða um land.
„Mér sýndist í sjónvarpinu að fólk hafi verið með hugann við annað en sóttvarnir um helgina,“ sagði Þórólfur í viðtalinu á Bylgjunni. Í gær greindust 32 einstaklingar með veiruna en á sunnudag greindust tuttugu.