Helgi Gríms­son, sviðs­stjóri skóla- og frí­stunda­sviðs, segir að ekki hafi greinst fleiri smit hjá starfs­fólki eða börnum á leik­skólanum Jörfa í dag en segir að enn sé beðið eftir niður­stöðum úr skimun starfs­manna, for­eldra og barna sem fóru í skimun í dag.

„Það virðist vera að starfs­maðurinn sem veiktist fyrst hafi smitast á vinnu­staðnum. Það eru meiri líkur en minni. Rakning er að fá mynd af þessu og það er í vinnslu en það er þannig ef að eitt­hvað hefur fengið að malla á svona vinnu­stað að ein­kenni koma mis­fljótt fram hjá fólki. Þetta er hóp­sýking og núna skiptir miklu máli að allir sem tengjast leik­skólanum með einum eða öðrum hætti, sama hvort það sé tengsl við starfs­fólk eða börn, að þau fari í skimun. Það þarf að negla þetta niður svo það breytist ekki úr hóp­sýkingu í bylgju,“ segir Helgi á­hyggju­fullur.

Smit hjá nemanda sem greindist í Sæ­mundar­skóla í gær tengist hóp­sýkingunni á Jörfa því um er að ræða barn starfs­manns á Jörfa. Allir nem­endur í öðrum bekk skólans, 50 talsins, eru í sótt­kví vegna smitsins.

Allir í sóttkví til föstudags

Helgi segir að smitið megi mögu­lega rekja til brots á sótt­kví en það liggi ekkert fyrir hvort það sé vinur eða ættingi starfs­mannsins sem ekki hafi fylgt reglum og minnir á mikil­vægi þess að fara var­lega í um­ræðuna.

„Þessi starfs­maður sem greindist fyrst er alveg miður sín og tók á sig mikla smit­skömm að ó­sekju. Það er ekki við­komandi starfs­maður sem ber á­byrgð á smitinu heldur er í þessum að­stæðum,“ segir Helgi.

Hann segir að það verði lokað í leik­skólanum alla vikuna og að sótt­kví starfs­fólks ljúki með sýna­töku á föstu­dag og niður­staða úr því komi ekki fyrr en seint um kvöldið lík­lega.

Alls greindust 13 í gær með CO­VID-19 og voru flestir utan sótt­kvíar. Af þeim 13 sem greindust í gær tengjast að minnsta kosti 10 ein­staklingar leik­skólanum Jörfa við Hæða­garð í Reykja­vík að sögn Al­manna­varna. Allir starfs­menn og nem­endur eru nú í sótt­kví.

Alls er um að ræða um 130 ein­stak­linga en í leik­skólanum eru tæp­lega 100 börn og 33 starfs­menn. Sam­kvæmt upp­lýsingum al­manna­varna var starf­semi leik­skólans innan gildandi sótt­varna­reglna.