Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú sóttvarnabrot karlmanns sem leiddi til þess að 107 einstaklingar smituðust af COVID-19 í tengslum við leikskólann Jörfa í Bústaðarhverfi í Reykjavík.
Sævar Þór Jónsson, lögmaður, segir að ef karlmaðurinn braut sóttvarnalög af stórfelldu gáleysi eða af ásetningi gætu þeir sem hafa smitast farið í skaðabótamál.
„Ef einstaklingurinn er meðvitaður um að hann sé smitaður eða á að gera grein sér fyrir því af ákveðnum ástæðum en hlýtir ekki sóttvarnareglum getur það varðar bæði fangelsi og sektargreiðslum en þetta getur líka varðar þessa skaðabótaábyrgð gagnvart einstaklingum,“ segir Sævar.
„Það er ákvæði um þetta í sóttvarnalögum. Sem dæmi kom upp mál fyrir nokkrum árum sem snéri að einstaklingi sem vissi að hann væri HIV smitaður og gætti ekki að því að upplýsa einstaklinga um það.“
Þeir sem höfða skaðabótamál þurfa sýna fram á tjón en Sævar segir að slíkt tjón getur verið margvíslegt. Hann útilokar ekki að það væri einnig hægt að krefjast miskabóta.

„Mér skilst að það eru einstaklingar meðal þessara starfsmanna sem hafa orðið fyrir allverulega miklu tjóni. Það getur falist í fjárhagslegu tjóni eins og kostnaðurinn við það að vera mjög alvarlega veikur, tekjumissi og þess háttar,“ segir Sævar.
Guðmundur Páll Jónsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við RÚV í gær að brot einstaklingsins í tengslum við smitin á Jörfa séu með grófari sóttvarnabrotum sem lögreglan hefur rannsakað.
Lögreglan stefnir að því að taka skýrslu a manninum á næstum dögum en hann er grunaður um bæði brot á sóttkví og einangrun.
„Ef þetta er stórfellt gáleysi eða ásetningur er þetta skaðabótamál,“ segir Sævar.
„Þetta getur verið stór upphæð“
Spurður um hvort það gæti ekki orðið allverulega háar bætur ef allir 107 einstaklingarnir sem smituðust fara í mál, segir Sævar það fara eftir afleiðingum.
„Þetta getur verið stór upphæð en þetta fer eftir afleiðingum. Það þarf að bíða eftir afleiðingum. Það er mjög líklegt að við erum að tala um einhverja tugi einstaklinga sem gætu hafa urðið alvarlega veikir.“
Spurður um hvort fjárhagsleg aðstoð ríkisins fyrir tekjumissi vegna sóttkví eða einangrunar hafi ekki áhrif á upphæð bóta segir Sævar þær aðgerðir vera takmarkaðar.
„Tökum sem dæmi hvernig ætlar að meta það ef einstaklingur fær ekki lyktar og bragðskyn? Hvernig ætlarðu að meta það að einstaklingur hafi ekki andlegt þrek í eitt ár eða tvö ár. Maður er að heyra ýmsar útgáfur af þessu. Segjum að einstaklingur getur ekki mætt aftur í vinnu vegna afleiðinga vegna covid eða eftirkasta covid. Einstaklingur gæti verið búin að skipuleggja frí en kemst ekki þetta getur líka verið óbeint fjárhagslegt tjón,“ segir Sævar.