Krafa er nú gerð um bæði neikvætt PCR-próf og tvöfalda skimun við komuna til landsins. Núverandi fyrirkomulag er í gildi til 1. maí.

„Þetta er akkúrat sú reynsla og þekking sem við erum að afla okkur, hversu vel getum við treyst á þessi neikvæðu PCR-vottorð sem fólk er að koma með, og það er náttúrulega áhugavert ef fólk er að koma með neikvætt PCR-vottorð en er samt að greinast hér á landamærunum,“ segir Þórólfur.

Spurður hvort það séu dæmi um að slíkt gerist erlendis segir Þórólfur að það sé ekki hægt að segja til um það þar sem fyrirkomulagið hér á landi er mikið strangara en annars staðar.

Í gær voru ellefu einstaklingar hér á landi í einangrun með virkt COVID-19 smit og sjö lágu inni á sjúkrahúsi. Enginn var á gjörgæslu. Enginn greindist innanlands sólarhringinn á undan og þrettán voru í sóttkví.

Frá því að faraldurinn greindist fyrst hér á landi fyrir rétt rúmu ári hafa verið staðfest yfir sex þúsund smit og tekin hafa verið nærri 280 þúsund sýni innanlands. Tæplega 46 þúsund einstaklingar hafa lokið sóttkví og 327 hafa verið lögð inn á sjúkrahús, þar af eru um fimmtíu innlagnir á gjörgæslu.