Fólk sem kemur hingað til lands sem ferðamenn frá svæðum þar sem smit er ekki útbreitt er mjög ólíklegt til að vera smitað af COVID-19 samkvæmt greiningu á gögnum frá sóttvarnalækni sem finna má í fylgiskjali 3 með skýrslu um fyrirkomulag sóttvarna á landamærunum.

Skýrslan sem um ræðir var birt á vef Stjórnarráðsins 15. janúar en í hana vantaði fylgiskjal 3. Því hefur nú verið bætt í vefútgáfu skýrslunnar en samkvæmt svari Stjórnarráðsins við fyrirspurn Fréttablaðsins, þar sem óskað var eftir bæði skjalinu og útskýringum á því hvers vegna það vantaði í skýrsluna, segir: „Ráðuneytið taldi óvarlegt að birta fylgiskjal 3 nema að betur athuguðu máli.“

Ekki hafði borist svar við fyrirspurn Fréttablaðsins um ástæðu þess að óvarlegt þótti að birta skjalið þegar blaðið fór í prentun í gær.

Upplýsingar í fylgiskjali 3 eru byggðar á gögnum um farþega sem komu hingað til lands á tímabilinu 20. ágúst til 20. nóvember í fyrra og í þeim kemur meðal annars fram að hlutfall þeirra sem greindust jákvæðir í fyrri skimun við landamærin á tímabilinu var hæst meðal fólks með búsetu í Póllandi, eða 2,05 prósent.

Því næst var hlutfallið hæst meðal fólks með búsetu á Íslandi, 1,21 prósent. Sé hlutfallið skoðað út frá ríkisfangi er hlutfall fólks sem greindist við fyrri skimun á landamærum með pólskt ríkisfang 2,22 prósent og þeirra með íslenskt ríkisfang 0,61 prósent. Þá greindust 20 af 635 rúmenskum ríkisborgurum með jákvætt sýni í fyrri skimun.

Sé skoðað hlutfall af heildarfjölda þeirra sem greinast í fyrri sýnatöku á landamærum er fólk með pólskt ríkisfang tæplega 44 prósent þeirra sem greindust jákvæðir á umræddu tímabili. Hlutfall fólks með íslenskt ríkisfang var tæplega 19 prósent og um tvö prósent einstaklinga með litháískt ríkisfang.

Hlutfall þeirra sem greindust í seinni sýnatöku á landamærum var einnig hæst meðal fólks með pólskt ríkisfang, eða 46,6 prósent allra þeirra sem greindust jákvæðir á tímabilinu 20. ágúst til 20. nóvember 2020. Hlutfall jákvæðra sýna fólks með íslenskt ríkisfang var 20,5 prósent og þeirra með annað hvort spænskt eða breskt ríkisfang var 3,4 prósent.

Í fylgiskjali 3 kemur fram að áberandi sé að farþegar með ríkisfang í Póllandi séu „líklegri en aðrir að greinast jákvæðir í fyrri og síðari skimun“. Þá kemur einnig fram að líklegra sé að náin samskipti, til dæmis meðal fjölskyldu og vina, stuðli að dreifingu heldur en hefðbundin ferðamennska sem „felur í sér takmarkað samneyti við aðra íbúa“.