Ein manneskja innan smitrakningarteymi sóttvarnalæknis og ríkislögreglustjóra er nú smituð af COVID-19 en þetta kemur fram í frétt RÚV um málið. Um helmingur teymisins er nú í vinnusóttkví á hóteli.

Líkt og áður hefur komið fram er hlutverk teymisins að rekja þau smit sem komið hafa upp hér á landi og hafa samband við fólk sem þarf að fara í sóttkví.

Samkvæmt upplýsingum á covid.is frá því í gær hafa 1.135 smit verið staðfest hér á landi og eru hátt í níu þúsund manns í sóttkví. Rúmlega sex þúsund manns hafa aftur á móti lokið sóttkví.

RÚV hefur það eftir Ævari Pálma Pálmasonar að manneskjan sem smitaðist sé einkennalaus en allir í teyminu fóru í skimun hjá Íslenskri erfðagreiningu til að vernda starfsemi teymisins.

„Með frábærum stuðningi tæknimanna þá missti teymið ekki úr slag,“ sagði Ævar í samtali við Ríkisútvarpið um málið en búið var að koma upp nýrri vinnuaðstöðu á hótelinu á aðeins hálfum degi.

Alma D. Möller landlæknir greindi frá því á dögunum að mikið álag væri á teyminu og að erfitt væri orðið að rekja smit af völdum veirunnar. Sérstakt smitrakningarapp verður sett í loftið síðar í dag sem mun auðvelda vinnuna við smitrakningar.