Í gær kom upp smit í Öldutúnsskóla í Hafnarfirði. Þrír bekkir, tveir á yngsta stigi og einn á miðstigi, eru komnir í sóttkví. Fyrst var greint frá á mbl.is.

Alls er um að ræða 62 börn sem eru í sóttkví og 14 starfsmenn. Valdimar Víðisson, skólastjóri skólans, segir í samtali við Fréttablaðið að strax og smitið kom upp hafi skólinn í samstarfi við almannavarnir farið í það að láta vita. Hann segir að búið sé að rekja smitið.

„Það var staðfest í gærkvöldi og það höfðu allir foreldrar fengið skilaboð fyrir klukkan sjö í morgun,“ segir Valdimar.

Hann segir að þetta sé fyrst smitið sem kemur upp í þriðju bylgjunni í skólanum en að það hafi einu sinni þurft að senda bekk í sóttkví í fyrstu bylgjunni.

Valdimar segir að börnin fari í skimun á þriðjudag eða miðvikudag og ef að þau greinast neikvæð megi gera ráð fyrir því að þau geti snúið aftur í skólann um miðja viku.

Alls greindust 11 innanlands í gær og voru aðeins þrír af þeim í sóttkví. Alls eru 166 í einangrun á landinu samkvæmt tölum gærdagsins og 446 í sóttkví. Þá eru einnig 846 í skimunarsóttkví.