Tveir þeirra sem greinst hafa með E. coli bakteríuna, sem rekja má til ferða­þjónustu­bæjarins Efsta­dals 2 í Blá­skóga­byggð, smituðust eftir að gripið var til að­gerða á bænum 4. júlí. Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Matvælastofnun fara fram á að auknar kröfur verði settar á starf­semina þar en greint er frá á vef Embættis landlæknis.

Alls hefur E. coli sýking verið stað­fest hjá 21 ein­stak­lingi, þar af eru 19 börn og tveir full­orðnir. Ekkert barn er nú inni­liggjandi á Barna­spítala Hringsins af völdum STEC E. coli og enn er beðið eftir stað­festingu á greiningu hjá barninu í Banda­ríkjunum sem grunað er um al­var­lega E. coli-sýkingu.

Niður­stöður frá þeim tveimur full­orðnu ein­stak­lingum sem greindust með bakteríuna þann 17. júlí sýndu að báðir voru þeir með sömu tegund og greinst hefur í börnunum og kálfum í Efsta­dal.

Annar ein­stak­linganna starfar í Efsta­dal og hefur verið ein­kenna­laus. Við­komandi hefur ekki starfað við mat­væla­fram­leiðslu eða af­greiðslu mat­væla og hefur því ekki sér­staka tengingu við hina sýktu. Niður­staðan sýnir hins vegar að E. coli bakterían er út­breiddari á staðnum en áður hefur verið sýnt fram á og ekki ein­göngu bundin við kálfana.

Ekki tekist að uppræta smitleiðir

Hinn ein­stak­lingurinn er er­lendur ferða­maður sem kom til landsins 5. júlí. Hann heim­sótti Efsta­dal 8. júlí og veiktist 11. júlí. Í Efsta­dal neytti hann mat­væla, þar á meðal íss en var ekki í sam­neyti við dýr.

Land­læknir segir að það sé því ljóst að ekki hefur tekist að upp­ræta smit og smit­leiðir í Efsta­dal með þeim að­gerðum sem gripið var til um og eftir 4. júlí. Í ljósi þess hafi Heil­brigðis­eftir­lit Suður­lands í sam­ráði við Mat­væla­stofnun gert kröfur um úr­bætur á ákveðnum þáttum starf­seminnar.

Alþrif og sótthreinsun

Er farið fram á að sala íss verði stöðvuð þar til al­þrif og sótt­hreinsun hefur verið gerð. Fram­leiðsla íss á staðnum var stöðvuð 5. júlí og verður ekki hafin fyrr en að upp­fylltum á­kveðnum skil­yrðum.

Þá fari fram al­þrif og sótt­hreinsun á veitinga­stað og að­lægum rýmum. Þess ber að geta að þessum þætti var lokið í dag. Þá verði passað upp á að að­gengi að dýrum verði á­fram lokað þar til við­unandi hrein­lætis­að­staða/hand­þvottar­að­staða hefur verið sett upp.

Einnig að að­skilnaður milli veitinga­svæða og dýra verði efldur og að lokum að þeir starfs­menn sem vinna við mat­væli þurfi að sýna fram á þeir séu ekki með bakteríuna STEC E.coli.

Fréttin hefur verið uppfærð.