Inniliggjandi sjúklingur á blóð- og krabbameinslækningadeild Landspítala, 11EG, hefur nú greinst með COVID-19 en frá þessu er greint í tilkynningu á vef spítalans. Þá hafa einnig tveir starfsmenn á deildinni greinst undanfarna daga en sjúklingurinn greindist í gær.

Að því er kemur fram í tilkynningunni hefur farið fram ítarleg rakning og verður fólk skipað í sóttkví eftir atvikum. Sjúklingurinn hefur verið fluttur á smitsjúkdómadeild í einangrun og eru tveir aðrir sjúklingar í sóttkví.

Spítalinn segir ekki hægt að segja til um tengingu milli smitanna en mögulegt sé að um þrjá aðskilda atburði sé að ræða.

Alls eru nú tíu sjúklingar inniliggjandi á Landspítala vegna COVID-19, þar af tveir á gjörgæslu, en einn útskrifaðist síðastliðinn sólarhring og þrír lögðust inn. 965 eru í eftirliti á COVID-göngudeild þar sem þrír eru flokkaðir sem rauðir og fimmtán gulir.

21 starfsmaður er nú í einangrun, auk þess sem 35 starfsmenn eru í sóttkví A og 92 í vinnusóttkví. Landspítali er nú á hættustigi og er vel fylgst með gangi mála er varðar stöðu COVID-19.