Daði og Gagnamagnið eru nú í sóttkví eftir að meðlimur íslenska hópsins fyrir Eurovision í Rotterdam greindist með kórónaveiruna. Ísland er í seinni undanúrslitariðlinum sem fer fram næstkomandi fimmtudag.

Að því er kemur fram í tilkynningu um málið greindist smitið í dag og verða allir í hópnum sendir í sóttkví þar til niðurstöður úr PCR-prófi liggja fyrir.

Líkt og greint var frá í gær greindist einn einstaklingur úr pólska hópnum með veiruna í gær og var allur pólski hópurinn sendur í sóttkví í kjölfarið. Þau höfðu síðast verið við æfingar á sviðinu í Rotterdam á fimmtudag. Ekki hefur verið greint frá fleiri smitum hjá pólska hópnum.

Óljóst er hvað gerist næst en að því er kemur fram í frétt á vef Eurovision World eru tveir valkostir í boði ef Daði og Gagnamagnið verða enn frá þegar fimmtudagur rennur upp. Annars vegar verður hægt að nýta upptöku frá seinni æfingunni eða að streymt verður frá frammistöðu þeirra, svokallað „Live-on-tape.“

Fréttin hefur verið uppfærð.