Neyðarstjórn Reykjavíkurborgar og almannavarnir hafa unnið að fjölmörgum verkefnum yfir helgina tengt hinum stóraukna fjölda kórónuveirusmita.

Aðgerðarstjórn höfuðborgarsvæðisins (AST) þar sem slökkviliðsstjóri situr fyrir hönd sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu fundaði í gær og hittist aftur í morgun, ásamt sóttvarnarlækni og fulltrúum ríkislögreglustjóra. Á grunni gagna um þróun á fjölda smita og smitrakningu var ákveðið að gera ekki breytingar á viðbúnaðarstigi eða fyrirmælum í því sem snýr að sóttvörnum og sveitarfélögum.

Neyðarstjórn borgarinnar fundaði svo klukkan 15.00 í dag. Þar var farið var yfir stöðuna á öllum sviðum borgarinnar varðandi smit, sóttkví og mannahald. Starfsemi borgarinnar helst að mestu óbreytt samkvæmt óbreyttum sóttvarnarráðstöfunum, að frátöldum þeim stöðum þar sem upp hafa komið smit. Þetta kemur fram í upplýsingapósti frá Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra Reykjavíkur til starfsfólks Reykjavíkurborgar

Smit greinst í sex grunnskólum

Á skóla- og frístundasviði hafa greinst smit í sex grunnskólum.

Allur 7. bekkur í Melaskóla er í sóttkví, eitt smit greindist í Klettaskóla og eru níu í sóttkví þar á meðal einn nemandi.

Allur 4. bekkur í Hvassaleitisskóla er í sóttkví í kjölfar smits og einnig í frístundaheimilinu Krakkakot og skerðist starfsemi þess.

Þá kom upp smit í 7. bekk Vesturbæjarskóla og hjá starfsmanni í Tjarnarskóla en beðið er eftir niðurstöðum rakningarteymis. Jafnframt kom upp smit hjá starfsmanni Breiðagerðisskóla en viðkomandi var þegar í sóttkví og hefur það engin áhrif á skólastarf.

Starfsfólk á einni leikskóladeild á Ægisborg er í sóttkví og er deildin því lokuð ásamt Lúðrasveit Vesturbæjar B-sveit.

Þá er skert starfsemi í tónlistarskólanum Díonýsíus Vox.

Áhrif á önnur svið starfsemi borgarinnar eru minni og aðrir leikskólar, grunnskólar, frístundaheimili, félagsmiðstöðvar, tónlistarskólar og starfsemi skólahljómsveita verða með óskerta starfsemi. Reykjavíkurborg rekur 37 grunnskóla þar sem um 14.000 börn stunda nám. Leikskólar í borginni eru 63 talsins þar sem hátt í 6.000 börn dvelja.

55 starfsmenn á velferðarsviði í sóttkví

Tólf smit hafa greinst hjá starfsfólki á velferðarsviði borgarinnar og eru 55 í sóttkví. Um 100 starfsmenn hafa farið í skimun og munu fleiri verða skimaðir næstu daga.

Reykjavíkurborg rekur 70 sólarhringsstofnanir þar sem órofin þjónusta verður að vera tryggð en þjónustan er um leið viðkvæm þar sem íbúarnir þurfa að þekkja það starfsfólk sem þar starfar hverju sinni.

„Það er því heilmikil áskorun sem velferðarsviðið stendur frammi fyrir en stendur sig með prýði. Vil ég þakka öllum sem að þessum flóknu málum hafa komið fyrir vel unnin störf. Sannarlega hefur einnig mikið mætt á því starfsfólki sem ekki er í sóttkví. Til að styðja við starfsemina hefur velferðarsvið einnig haft samband við fyrrverandi starfsfólk ásamt því að setja bakvarðasveit velferðarsviðs í viðbragðsstöðu," segir Dagur.

Starfsfólk velferðarsviðs eru um 3.000 talsins og er umfang starfseminnar gríðarlegt. Hluti af starfsemi sviðsins eru íbúðakjarnar, sambýli og skammtímadvalarheimili fyrir fatlað fullorðið fólk, íbúðakjarnar fyrir aldrað fólk, hjúkrunarheimili, dagdvalir, vistheimili fyrir börn, starfsþjálfunarstöðvar og neyðarskýli fyrir heimilislaust fólk.

Þá munu svið og stofnanir borgarinnar huga að hólfaskiptingu og sóttvörnum í starfsemi sinni líkt og áður við upphafi vikunnar. Dagur hvetur þá einstaklinga sem eru með einkenni veikinda til að halda sig heima, einnig sé ástæða fyrir alla að huga að einstaklingsbundnum sóttvörnum.