Stað­fest kórónu­veiru­smit hefur nú greinst í fjöru­tíu há­skólum í Bret­landi og eru þúsundir nem­enda í sótt­kví, sam­kvæmt BBC. Mun þetta vera um þriðjungur allra há­skóla í Bret­landi.

Þar sem skólaárið er ný­hafið eiga enn fjöl­margir nem­endur eftir að flytjast inn á há­skóla­svæðin og því er talið lík­legt að smitum gæti fjölgað enn meira.

Sean Coug­hlan, sem skrifar um mennta­mál fyrir BBC, segir þetta ástand vera langt frá því að vera sú há­skóla­upp­lifun sem nem­endur voru að vonast eftir. Há­skólar og yfir­völd þurfi að svara því sem fyrst hvað næstu skref verða.

Nem­endum var lofað blandaðri kennslu þar sem hluta náms yrði raf­rænt og hluti yrði í kennslutofum. Nem­endur greiddu náms­gjöld í sam­ræmi við það en nú virðist sem allt nám sé að verða raf­rænt.

Há­skólinn í Aberystwyth er einn þeirra háskóla sem ákvað í dag að öll kennsla verður raf­ræn héðan í frá.

Þúsundir nemenda í sóttkví í Manchester

Upp­lýsinga­full­trúi for­sætis­ráðu­neytisins, segir í sam­tali við BBC að allt verði gert svo há­skóla­nemar sem hafa smitast geti ferðast til sín heima fyrir jólin.

Um 1.700 nem­endur í Manchester Metropolitan há­skólanum hafa verið sendir í sótt­kví eftir að 127 nem­endur greindust með CO­VID-19.

Í Glas­gow há­skóla hafa 600 nem­endur verið sendir í sótt­kví eftir að 172 smit greindust meðal nem­enda.

Þá eru 100 nem­endur í sótt­kví í konung­lega há­skólanum í Belfast eftir að 30 nem­endur smituðust.

Kate Green, þing­maður Verka­manna­flokksins, segir að nem­endur ættu að eiga rétt á því að fá náms­gjöld sín endur­greidd.

Nemendur við háskólann í Glasgow bíða í röð eftir að komast í skimun á háskólasvæðinu.
Ljósmynd/AFP

„Þau sögðu okkur að koma hingað“

Nem­endur sem BBC hefur verið í sam­tali við segja að mikil ringul­reið og ó­vissa ríkir um nýju smitin á há­skóla­svæðunum.

„Fullt af nem­endum hafa yfir­gefið há­skóla­svæðið því þau vilja ekki festast hérna,“ segir Eve, nemandi í Manchester Metropolitan há­skólanum. „Ég get ekki farið heim því ég bý hjá afa mínum og ég vil ekki að hann fái veiruna,“ segir Eve.

„Þau eru núna að kenna okkur um þessi smit en það voru há­skólarnir sem sögðu okkur koma hingað til að byrja með,“ segir hún enn fremur.

Annar nemandi við há­skólann í Leeds, sem vill ekki láta nafns síns getið, segir að hún sé svo ó­sátt með á­standið að hún ætlar að yfir­gefa há­skolann.

„Við viljum ekki vera föst í pínu­litla her­berginu okkar á há­skóla­svæði sem við vorum að mæta á. Við erum að borga svo mikinn pening fyrir þetta,“ segir nemandinn.

Sam­kvæmt BBC eru fjöl­margir for­eldrar einnig á­hyggju­fullir um heilsu barna sinna, bæði líkam­lega og and­lega.

Lluis Borrell, sem á tví­bura­syni sem hófu nám í Warwick og Notting­ham, segir í sam­tali við BBC að ef öll mann­leg sam­skipti milli nem­enda verður bönnuð gæti það haft slæm á­hrif á and­lega heilsu.

„Er það sann­gjarnt? Hefðu þeir átt að fara í há­skóla. Mér líður eins og þeir fóru í há­skóla bara til að smitast af Co­vid,“ segir Borrell.